Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1026, 111. löggjafarþing 242. mál: viðskiptabankar (bankaráð, hagsmunaárekstrar o.fl.).
Lög nr. 32 12. maí 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka.


1. gr.

     Við 1. mgr. 13. gr. laganna bætist: Hlutafjáreign í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki ræður úrslitum um stjórnun þess og sem fyrst og fremst telst ávöxtun sparifjár. Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands sker úr um í einstökum tilvikum hvort hlutafjáreign brjóti í bága við grein þessa. Getur það, þegar sérstaklega stendur á, veitt viðkomandi aðila frest í allt að þrjá mánuði til þess að uppfylla skilyrði þessarar málsgreinar.

2. gr.

     4. mgr. 21. gr. laganna hljóði svo:
     Bankaráð ákvarðar vexti bankans og gjaldskrá þjónustugjalda fyrir einstaka þætti starfseminnar að fengnum tillögum bankastjórnar. Bankaráð fjallar einnig um vexti af skuldabréfum sem bankinn gefur út og þá vexti sem bankinn áskilur sér við kaup á viðskiptavíxlum og viðskiptaskuldabréfum. Við umfjöllun um vexti eða kaupgengi viðskiptavíxla og viðskiptaskuldabréfa skal bankaráð gæta þess að ávöxtunarkrafa bankans sé sambærileg við ávöxtun almennra útlána bankans í hliðstæðum áhættuflokkum.
     5. mgr. 21. gr. laganna hljóði svo:
     Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Reglur þessar skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega og skulu þær sendar bankaeftirlitinu sem láta skal í té álit á þeim hverju sinni.
     Núverandi 5. mgr. færist aftur og verði 6. mgr.

3. gr.

     2. mgr. 33. gr. laganna hljóði svo:
     Bankaráðsmenn skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku bankaráðsmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.
     Núverandi 2. mgr. 33. gr. færist aftur og verði 3. mgr.

4. gr.

     1. mgr. 40. gr. laganna orðist svo:
     Endurskoðun hjá ríkisviðskiptabanka skal framkvæmd af Ríkisendurskoðun og skoðunarmanni sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn og skal hann vera löggiltur endurskoðandi.

5. gr.

     Við 1. mgr. 54. gr. bætist svohljóðandi málsliður: Sé bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem viðskiptabanki notar til starfsemi sinnar, hærra en sem nemur 65% af eigin fé bankans skal hlutfallið fara stöðugt lækkandi á þessu tímabili þar til 65% markinu er náð, nema ráðherra veiti að fengnum tillögum bankaeftirlitsins undanþágu til hækkunar á hlutfallinu á tímabilinu.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 1989.