Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1077, 111. löggjafarþing 415. mál: Íslensk málnefnd (nefndarmenn).
Lög nr. 41 19. maí 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 80/1984, um Íslenska málnefnd.


1. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Í Íslenskri málnefnd eiga sæti fimmtán menn, skipaðir af menntamálaráðherra. Auk þess er málnefndinni heimilt að bjóða einstaklingi, einum eða tveimur, setu í nefndinni ef hún telur það nefndarstarfinu til gagns.
     Háskólaráð, heimspekideild Háskóla Íslands og Orðabók Háskólans tilnefna einn mann hvert í nefndina og skipar ráðherra úr þeirra hópi formann og varaformann nefndarinnar.
     Níu nefndarmenn skipar ráðherra samkvæmt tilnefningu Örnefnanefndar, Kennaraháskóla Íslands, Ríkisútvarpsins, Þjóðleikhússins, Staðlaráðs Íslands, Samtaka móðurmálskennara, Rithöfundasambands Íslands, Blaðamannafélags Íslands og Hagþenkis. Loks skal ráðherra skipa þrjá menn frá öðrum stofnunum, félögum eða samtökum sem fást við málrækt eða hafa mikil áhrif á málfar almennings og skal að minnsta kosti einn þeirra vera úr röðum íðorðafólks.
     Innan málnefndar starfar fimm manna stjórn. Í stjórninni eiga sæti þeir þrír menn sem skipaðir eru skv. 2. mgr. og tveir menn sem málnefndin kýs úr hópi nefndarmanna. Formaður og varaformaður málnefndar eru jafnframt formaður og varaformaður stjórnar.
     Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.

2. gr.

     7. gr. laganna breytist þannig:
     a. 1. mgr. orðast svo:
     Íslensk málnefnd kemur saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári og ella þegar formaður boðar til fundar eða meiri hluti málnefndarmanna óskar þess.
     b. Við bætist ný málsgrein er verði 2. mgr. og orðist svo:
     Stjórn málnefndarinnar hefur forustu fyrir starfsemi nefndarinnar. Stjórnin beitir sér fyrir einstökum málræktarverkefnum og annast í umboði nefndarinnar og í samvinnu við málstöðina afgreiðslu þeirra mála er nefndinni berast. Stjórnin heldur fundi eftir þörfum. Skylt er formanni að boða til stjórnarfundar ef stjórnarmaður eða forstöðumaður málstöðvar óskar þess.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990. Frá þeim degi lýkur skipunartíma þeirrar nefndar er nú situr.
     Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 80/1984 og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1989.