Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1109, 111. löggjafarþing 410. mál: ríkisprentsmiðjan Gutenberg (stofnun hlutafélags).
Lög nr. 45 23. maí 1989.

Lög um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti: Prentsmiðjan Gutenberg hf.
     Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
  1. að leggja ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, þ.e prentsmiðjuna sjálfa ásamt öllu fylgifé hennar, til hins nýja hlutafélags,
  2. að láta fara fram mat á eignum ríkisprentsmiðjunnar til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Við stofnun eru öll hlutabréf í hlutafélaginu eign ríkissjóðs.


2. gr.

     Hlutverk félagsins skal vera að vinna prentverk fyrir Alþingi, Stjórnarráð og ríkisstofnanir. Félagið annast einnig almennt prentverk, svo og skylda starfsemi samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins.

3. gr.

     Fastráðnir starfsmenn ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður. Ákvæði 14. gr. laga nr. 28/1954, um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, á því ekki við um þá starfsmenn.

4. gr.

     Verði hlutabréf ríkissjóðs í Gutenberg hf. seld öll eða að hluta skal leita samþykkis Alþingis fyrir þeirri sölu.

5. gr.

     Iðnaðarráðherra fer með eignarhluta ríkisins í félaginu.

6. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, gildir ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu og 1. mgr. 17. gr. sömu laga gildir ekki um tölu hluthafa.
     Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga um hið nýja félag og greiðir það opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.
     Stofnfund hins nýja hlutafélags skal halda eigi síðar en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og skal leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á stofnfundinum.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Hlutafélag skv. 1. gr. yfirtekur ríkisprentsmiðjuna Gutenberg 1. janúar 1990.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1989.