Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 490, 112. löggjafarþing 232. mál: viðskiptabankar (samruni viðskiptabanka).
Lög nr. 120 28. desember 1989.

Lög um breytingu á lögum nr. 86/1985, um viðskiptabanka.


1. gr.

     1. mgr. 50. gr. laganna hljóði svo:
     Samruni hlutafélagsbanka, hvort sem er innbyrðis eða við aðrar innlánsstofnanir, og sameining bankastarfsemi tveggja eða fleiri viðskiptabanka má því aðeins fram fara að fengið sé leyfi ráðherra. Um samruna hlutafélagsbanka gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt. Við gildistöku sameiningar bankastarfsemi tekur hinn sameinaði viðskiptabanki við allri bankastarfsemi, réttindum og skyldum þess viðskiptabanka sem hættir bankastarfsemi. Um sameiningu bankastarfsemi gilda að öðru leyti samningar aðila um það efni.
     Við 2. mgr. 50. gr. bætist svohljóðandi ákvæði: Hliðstæð ákvæði skulu gilda við sameiningu bankastarfsemi sem fram fer án sameiningar þeirra félaga eða stofnana sem að bankarekstrinum hafa staðið.
     3. mgr. 50. gr. hljóði svo:
     Auglýsa skal sameiningu bankastarfsemi viðskiptabanka í Lögbirtingablaði. Í þeirri auglýsingu skal tilkynna upphafsdag gildistíma sameiningarinnar, nafn þeirrar bankastofnunar sem bankareksturinn sameinast í, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga til hins sameinaða banka, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala, ef um þær verður að ræða, yfirfærslu veðtrygginga fyrir útlánum þeirra bankastofnana sem sameinast til hins sameinaða banka, sem og annað það sem kunngera þarf viðskiptavinum sérstaklega.
     Núverandi 3. mgr. 50. gr. verði 4. mgr. sömu greinar.
     5. mgr. hljóði svo:
     Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum vegna sameiningar bankastarfsemi eða samruna hlutafélagsbanka er undanþegin stimpilgjöldum.

2. gr.

     Við 1. gr. ákvæða til bráðabirgða í lögunum bætast tvær nýjar málsgreinar:
     Ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 6. gr. gildir þó ekki ef hluthafi er ríkissjóður eða annar íslenskur viðskiptabanki, jafnvel þótt sá banki hafi sameinað bankarekstur sinn rekstri viðkomandi viðskiptabanka og starfi sem eignarhaldsfélag með aðild að sameiginlegum banka. Skal þá atkvæðisréttur þeirra að fullu vera í hlutfalli við hlutafjáreign.
     Viðskiptabanki, sem sameinað hefur bankarekstur sinn rekstri annars viðskiptabanka og á áfram hlut í hinum sameinaða viðskiptabanka, má halda orðinu banki í nafni sínu, enda sé orðinu eignarhaldsfélag bætt framan við nafn félagsins.

3. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. janúar 1990.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1989.