Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1093, 113. löggjafarþing 462. mál: almannatryggingar (vasapeningar).
Lög nr. 29 27. mars 1991.

Lög um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.


1. gr.

     Síðasta málgrein 51. gr. laganna hljóði svo:
     Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á stofnun eða vistheimili, sem er á föstum fjárlögum, eða þar sem sjúkratryggingar greiða fyrir hann fellur lífeyrir hans niður ef vistin hefur verið lengri en fjórir mánuðir undanfarna 24 mánuði. Tryggingaráði er þó heimilt að víkja frá þessum tímamörkum ef sérstaklega stendur á. Sé dvölin ekki greidd að fullu er heimilt að greiða lífeyri allt að því sem á vantar. Hafi hlutaðeigandi innan við 3.000 kr. í tekjur á mánuði er heimilt að greiða honum 10.000 kr. á mánuði í vasapeninga. Tekjur umfram 3.000 kr. skerða vasapeninga um 33% þeirra tekna sem umfram eru. Ef tekjur hlutaðeigandi eru af vinnu á stofnuninni og telja má vinnuna þátt í endurhæfingu eða föndur er heimilt að ákveða að tekjurnar hafi ekki skerðingaráhrif á vasapeningana. Nú dvelst lífeyrisþegi utan stofnunar nokkra daga í senn en útskrifast samt ekki og er þá heimilt að greiða honum dagpeninga sem eigi séu lægri en tvöfaldir sjúkradagpeningar hverju sinni.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1991.