Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 356, 115. löggjafarþing 45. mál: bókhald (reikningsskilaráð).
Lög nr. 95 31. desember 1991.

Lög um breyting á lögum nr. 51/1968, um bókhald.


1. gr.

     Við lögin bætist nýr kafli, IV. Reikningsskilaráð og góð reikningsskilavenja, með þremur greinum og breytast kafla- og greinatölur samkvæmt því:
     
     a. (23. gr.)
     Ráðherra skal skipa fimm sérfróða menn til fjögurra ára í senn í nefnd sem nefnist reikningsskilaráð. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af Félagi löggiltra endurskoðenda, annar af viðskiptadeild Háskóla Íslands, þriðji af Verslunarráði Íslands, sá fjórði skal vera ríkisendurskoðandi, en einn nefndarmaður er skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar formann reikningsskilaráðs úr hópi nefndarmanna.
     
     b. (24. gr.)
     Reikningsskilaráð skal stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju með útgáfu og kynningu samræmdra reglna sem farið skal eftir við gerð reikningsskila. Ráðið skal gefa álit á því hvað telst vera góð reikningsskilavenja á hverjum tíma. Reikningsskilaráð skal árlega auglýsa í Lögbirtingablaðinu skrá yfir útgefnar reglur og álit.
     Ráðið skal starfa í nánu samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og hagsmunaaðila. Það getur einnig verið stjórnvöldum til ráðuneytis um ákvæði sem sett eru í lögum eða reglugerðum um reikningsskil.
     
     c. (25. gr.)
     Ráðherra ákveður skiptingu kostnaðar við störf reikningsskilaráðs að höfðu samráði við tilnefningaraðila.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. desember 1991.