Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 641, 115. löggjafarþing 22. mál: viðskiptabankar (erlendir bankar, eigið fé og samstæðureikningar).
Lög nr. 7 31. mars 1992.

Lög um breytingu á lögum um viðskiptabanka, nr. 86 4. júlí 1985.


1. gr.

     Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
     Erlendur hlutafélagsbanki getur þó notað sama heiti og notað er í heimalandinu.

2. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 1. mgr. og orðast svo:
     Ráðherra getur veitt hlutafélagsbönkum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, leyfi til að starfrækja útibú hér á landi. Lög þessi gilda um starfsemi útibúa erlendra hlutafélagsbanka eftir því sem við getur átt. Að öðru leyti gilda um slík útibú lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991.
     2. mgr. 8. gr., sem verður 3. mgr., orðast svo:
     Ákvæði laga um hlutafélög, einkum XVII. kafli, gilda um útibú og umboðsskrifstofur sem sett eru á stofn skv. 1. og 2. mgr. en að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur um starfsemi þeirra að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, þar á meðal um skilyrði fyrir leyfisveitingu og afturköllun leyfisins ef starfrækslan brýtur í bága við settar reglur. Um gjald fyrir veitingu leyfis fer eftir ákvæðum laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 79 23. desember 1975.

3. gr.

     Við 21. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 4. mgr. og orðast svo:
     Tilkynna skal bankaeftirliti Seðlabanka Íslands fyrir fram um stofnun útibús.

4. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Eigið fé viðskiptabanka, eins og það er skilgreint skv. 2. mgr., skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar 8% af áhættugrunni, þ.e. heildareignum bankans og liðum utan efnahagsreiknings samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli viðskiptabanka sem Seðlabanki Íslands setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. málsl. skal gilda um samstæðureikning, sbr. 37. gr.
     Við útreikning á eiginfjárhlutfalli, sbr. 1. mgr., skal eigið fé samsett af tveimur þáttum, eiginfjárþætti A og eiginfjárþætti B, sbr. 3. og 4. mgr. Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár.
     Eiginfjárþáttur A telst vera:
  1. Innborgað hlutafé.
  2. Endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum.
  3. Varasjóðir og annað eigið fé samkvæmt ársreikningi sem ekki fellur undir eiginfjárþátt B.
  4. Afskriftareikningur vegna almennrar útlánaáhættu að hámarki 1,25% af áhættugrunni. Með afskriftareikningi útlána vegna almennrar útlánaáhættu er ekki átt við þau framlög, almenn og sérstök, sem lögð hafa verið til hliðar vegna útlánatapa og sérstaklega hafa verið metin eða talin eru hugsanleg á uppgjörsdegi með hliðsjón af tapreynslu í útlánastofninum og endurspegla rýrnun á verðmæti útlánanna.
  5. Frá eiginfjárþætti A skal draga eigin hlutabréf, viðskiptavild og aðrar óáþreifanlegar eignir, svo og áfallnar ófærðar skattskuldbindingar sem rýra möguleika bankans til að mæta tapi.

     Eiginfjárþáttur B telst vera víkjandi lán sem viðskiptabanki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot bankans eða slit hans fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur bankanum en endurgreiðslu hlutafjár eða sambærilegs eigin fjár ríkisviðskiptabanka. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár sem líður af þessum fimm árum nema um sé að ræða lán sem greiðist niður með jöfnum afborgunum á tímabilinu. Heildarfjárhæð víkjandi lána má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
     Frá eigin fé skv. 2. mgr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi lánum viðskiptabanka hjá félögum, sem falla undir skilgreiningu 1. mgr. 28. gr., öðrum en þeim sem teljast vera dótturfélög og reiknast með í samstæðureikningi viðskiptabanka og dótturfélaga, sbr. eftirfarandi:
  1. Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutir viðskiptabankans nema meira en 10% af hlutafé viðkomandi félaga. Enn fremur víkjandi lán hjá sömu félögum.
  2. Eignarhlutur í félagi, sem viðskiptabanki hefur eignast tímabundið vegna endurskipulagningar þess félags, skal ekki dragast frá.
  3. Eignarhlutur í félögum þar sem eignarhlutir viðskiptabankans nema allt að 10% af hlutafé viðkomandi félaga. Frádrátturinn takmarkast við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi lána sem er umfram 10% af eigin fé viðskiptabankans eins og það er reiknað skv. 2. mgr. fyrir frádrátt skv. 3. mgr.

     Heimilt er ráðherra að ákveða að aðrir efnahagsliðir en greindir eru í 3. og 4. mgr. skuli teljast með eigin fé að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.

5. gr.

     Við 1. mgr. 37. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir svohljóðandi: Þegar um er að ræða viðskiptabanka, sem á það stóran hlut í félagi að það síðarnefnda telst dótturfélag, sbr. 2. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, skal semja samstæðureikning fyrir félagasamstæðuna. Ákvæðið um skyldu til að semja samstæðureikning gildir þó ekki þegar um er að ræða félag sem viðskiptabanki hefur eignast tímabundið hlut í annaðhvort til að tryggja fullnustu kröfu eða vegna endurskipulagningar þess félags. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá skyldu til að semja samstæðureikning.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Viðskiptabanki skal uppfylla ákvæði um eigið fé skv. 4. gr. eigi síðar en í árslok 1992.
     Ákvæði 5. gr. um samstæðureikning fyrir félagasamstæðu tekur gildi frá og með reikningsárinu 1992.

Samþykkt á Alþingi 25. mars 1992.