Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1046, 115. löggjafarþing 489. mál: Lífeyrissjóður sjómanna (ávöxtun á fé, bótaréttur o.fl.).
Lög nr. 44 1. júní 1992.

Lög um breyting á lögum nr. 49/1974, um Lífeyrissjóð sjómanna, sbr. lög nr. 10/1978, nr. 15/1980, nr. 48/1981 og nr. 78/1985.


1. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
     Stjórn sjóðsins getur ákveðið aðra skipan mála.

2. gr.

     2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun eða af löggiltum endurskoðendum.

3. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn sjóðsins skal sjá um ávöxtun á fé hans. Því má ráðstafa á eftirfarandi hátt:
  1. Í ríkisskuldabréfum.
  2. Í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
  3. Í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga.
  4. Í bönkum og sparisjóðum.
  5. Í húsnæði til eigin nota.
  6. Í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteignum. Stjórn sjóðsins skal setja reglur um veðhæfni fasteigna.
  7. Í skuldabréfum stofnlánasjóða atvinnuveganna, fjárfestingastofnana eða annarra lánastofnana en þeirra er áður er getið, enda hafi Seðlabanki Íslands veitt þeim viðurkenningu í þessu skyni.
  8. Í hlutabréfum í fyrirtækjum sem hafa skráð kaup- og sölugengi á markaði hjá a.m.k. tveimur verðbréfafyrirtækjum sem aðild eiga að Verðbréfaþingi Íslands. Þó er óheimilt að verja meira en 5% af árlegu ráðstöfunarfé til kaupa á hlutabréfum og enn fremur er óheimilt að eiga meira en 5% hlutafjár í hverju fyrirtæki.


4. gr.

     3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin iðgjaldahluta. Á þeim skipum, þar sem hver mánuður telst sérstakt kauptryggingartímabil, er gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar 15. dagur næsta mánaðar. Á þeim skipum, þar sem hver veiðiferð telst sérstakt kauptryggingartímabil, er gjalddagi iðgjalda 15. dagur eftir að veiðiferð lýkur. Verði vanskil á greiðslu iðgjalda lengur en 30 daga fram yfir gjalddaga er stjórn sjóðsins heimilt að innheimta vangoldin iðgjöld með vanskilavöxtum, sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæsta að taka, frá gjalddaga. Verði breytingar í kjarasamningum á framangreindum viðmiðunartímabilum er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða aðrar reglur varðandi gjalddaga iðgjaldagreiðslna.

5. gr.

     1. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
     Hver sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarin þrjú almanaksár og a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem tryggingayfirlæknir metur 35% eða meira. Örorkumatið skal miða við vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa. Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal þó miða við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Þrátt fyrir örorku á enginn rétt á örorkulífeyri meðan hann heldur fullum launum fyrir starf það er hann gegndi eða fær jafnhá laun fyrir annað starf sem veitir lífeyrissjóðsréttindi og aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar.

6. gr.

     5. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Nú lætur sjóðfélagi ekki eftir sig maka, en einstæð móðir hans, ógift systir eða sambýliskona hefur sannanlega annast heimili hans um árabil, þó ekki skemur en fimm ár fyrir andlát hans, og er þá stjórn sjóðsins heimilt að greiða hlutaðeigandi makalífeyri svo sem um ekkju væri að ræða. Láti sjóðfélagi eftir sig sambýliskonu og barn innan 18 ára aldurs sem hann hefur átt með eftirlifandi sambýliskonu sinni er sjóðstjórn heimilt að greiða makalífeyri þótt sambúðin hafi staðið skemur en fimm ár. Þá er sjóðstjórn heimilt að greiða sambýlismanni lífeyri í samræmi við ákvæði 3. og 4. mgr.

7. gr.

     7. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Ekkja eða ekkill samkvæmt þessari grein telst ekki sá sem skilinn var við sjóðfélagann að borði og sæng fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, en gengur aftur í gildi ef síðara hjónabandinu eða sambúðinni er slitið án réttar til lífeyris.

8. gr.

     3. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
     Sama rétt öðlast börn og kjörbörn þeirra sjóðfélaga er njóta örorkulífeyris úr sjóðnum vegna 100% örorku. Við ákvörðun lífeyrisfjárhæðar sjóðsins skal þó ávallt reikna með að örorka samkvæmt almannatryggingalögum sé 75%. Sé örorka metin lægri en 100% skal barnalífeyrir sjóðsins vera hlutfallslega lægri.

9. gr.

     3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða orðast svo:
     Frá árinu 1980 skulu elli-, örorku- og makalífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum þessum miðast við grundvallarlaun skv. 2. mgr. 11. gr. eins og þau eru 1. janúar, 1. apríl, 1. júlí, 1. október og 1. desember 1980, 1. mars, 1. júní, 1. september og 1. desember hvert ár 1981–1984, en í byrjun hvers mánaðar frá janúar 1985.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Örorkumat örorkulífeyrisþega, sem nýtur bóta vegna orkutaps fyrir gildistöku laga þessara, skal fyrstu fimm árin eftir gildistöku laganna miða við vanhæfni sjóðfélaga til þess að gegna starfi því er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd en eftir það skal miða við vanhæfni til almennra starfa. Þá skal breyting á barnalífeyri örorkulífeyrisþega vegna áhrifa ákvæðis 8. gr. laga þessara ekki koma til framkvæmda fyrr en fimm árum eftir gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.