Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 787, 116. löggjafarþing 451. mál: bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.
Lög nr. 15 23. mars 1993.

Lög um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.


1. gr.

     Verkfall Stýrimannafélags Íslands á ms. Herjólfi, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, er óheimilt.

2. gr.

     Hafi Skipstjórafélag Íslands, Stýrimannafélag Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Brytafélag Íslands og Sjómannafélagið Jötunn annars vegar og stjórn Herjólfs hf. hins vegar ekki náð samkomulagi um vinnutilhögun og launakjör fyrir 1. júní 1993 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skuli ákveða kaup og kjör skipverja á ms. Herjólfi fyrir 1. ágúst 1993.
     Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins.
     Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum, opinberum aðilum og fyrirsvarsmönnum Herjólfs hf. og eftirtalinna stéttarfélaga: Skipstjórafélags Íslands, Stýrimannafélags Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Brytafélags Íslands og Sjómannafélagsins Jötuns, Vestmannaeyjum.

3. gr.

     Gerðardómurinn skal við ákvörðun kaups og kjara samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu.
     Ákvarðanir gerðardóms skv. 1. gr. skulu vera bindandi fyrir aðila frá gildistöku laga þessara.

4. gr.

     Kostnaður við störf gerðardóms skv. 2. gr. laga þessara greiðist úr ríkissjóði.

5. gr.

     Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. desember 1993.

Samþykkt á Alþingi 23. mars 1993.