Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1293, 116. löggjafarþing 554. mál: atvinnuleysistryggingar (aðild að stéttarfélagi, hámarksaldur, biðtími o.fl.).
Lög nr. 54 19. maí 1993.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.


1. gr.

     1. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Launamenn, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum.
     Sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem hættir eru eigin atvinnurekstri og eru atvinnulausir og í atvinnuleit, skulu eiga sama rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði og launamenn, enda fullnægi þeir skilyrðum reglna sem ráðherra setur að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs veitir stéttarfélögum aðild að sjóðnum eftir umsókn þar um. Lögin taka ekki til þeirra sem tryggður er réttur til atvinnuleysisbóta með öðrum lögum.

2. gr.

     2., 3. og 4. gr. laganna falla niður.

3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Atvinnuleysistryggingasjóður skal inna af hendi þær bætur sem um ræðir í 1. gr. Árlegar tekjur sjóðsins eru þessar:
  1. Tekjur af tryggingagjaldi samkvæmt lögum um tryggingagjald.
  2. Framlag ríkissjóðs skv. 15. gr.
  3. Vextir af innstæðufé sjóðsins og verðbréfum.


4. gr.

     7. gr. laganna orðast svo:
     Tryggingastofnun ríkisins annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar og undir umsjá hennar. Ráðherra getur ákveðið annað fyrirkomulag að fenginni umsögn sjóðstjórnar.
     Sjóðurinn skal greiða stofnuninni þóknun fyrir þjónustu hennar samkvæmt samkomulagi milli aðila.
     Handbært fé sjóðsins skal ávaxta eftir því sem við verður komið í lánastofnunum á þeim stöðum þar sem fé sjóðsins fellur til.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða gerðar á III. kafla laganna:
  1. Heiti III. kafla verður: Um tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs.
  2. 9., 11., 12. og 13. gr. falla niður.
  3. 10. gr. orðast svo:
  4.      Til Atvinnuleysistryggingasjóðs rennur hlutfall af tekjum af tryggingagjaldi í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald.
  5. 15. gr. orðast svo:
  6.      Ríkissjóður greiðir framlag til Atvinnuleysistryggingasjóðs er skal nema þrefalt hærri fjárhæð en tekjur sjóðsins af tryggingagjaldi skv. 10. gr.
         Áætlað ríkissjóðsframlag greiðist mánaðarlega en fullnaðarskil skulu gerð þegar tekjur af tryggingagjaldi skv. 10. gr. liggja fyrir.


6. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit og fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 24. gr.:
  1. Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.
  2. Dvelja hér á landi.
  3. Hafa á síðustu 12 mánuðum unnið samtals a.m.k. 425 dagvinnustundir í tryggingaskyldri vinnu. Til að finna dagvinnustundir sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu 12 mánuði áður en sjálfstæðri starfsemi var hætt. Til að finna dagvinnustundir sjómanna skal margfalda fjölda skráningardaga með 8. Hafi maður stundað samfellt vinnu fyrir og eftir að hann náði 16 ára aldri öðlast hann rétt til bóta ef hann hefur unnið í tryggingaskyldri vinnu a.m.k. þriðjung tilskilins dagvinnutíma eftir að hann varð 16 ára.
  4. Sanna með vottorði vinnumiðlunarskrifstofu samkvæmt lögum um vinnumiðlun að hann hafi í upphafi bótatímabils verið atvinnulaus þrjá eða fleiri heila vinnudaga, að jafnaði samfellt.

     Í þessu sambandi teljast ekki með þeir dagar er maður hefur verið í verkfalli eða verkbann tekur til.

7. gr.

     18. gr. laganna orðast svo:
     Sá sem gengur undir starfsþjálfun eða sækir námskeið til þess að öðlast hæfni í starfi sínu eða til að stunda ný störf nýtur á meðan atvinnuleysisbóta í allt að 8 vikur ef atvinnuleysi hefði skapað honum rétt til slíkra bóta þegar starfsþjálfun eða dvölin á námskeiðinu hófst, enda njóti hann ekki launa. Sama gildir þegar bótaþegi sækir námskeið verkalýðssamtaka eða almenn námskeið, sem miða að aukinni starfshæfni hans, allt að 8 vikum. Úthlutunarnefnd skal tilkynna hlutaðeigandi vinnumiðlunarskrifstofu ákvarðanir sínar samkvæmt þessari málsgrein. Úthlutunarnefnd krefur bótaþega um sannanir um þátttöku hans samkvæmt framansögðu að viðlagðri sviptingu bóta. Ákvæði þessarar málsgreinar gilda ekki um þá sem taka að stunda námskeið eða annað nám sem varir lengur en 8 vikur.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrki til rekstrar starfsþjálfunarnámskeiða á vinnustað eða utan hans. Styrkur þessi má nema allt að þeim atvinnuleysisbótum sem hver einstakur þátttakandi hefur áunnið sér rétt til, auk óhjákvæmilegs ferðakostnaðar sem miðast við fargjöld með almenningsfarartækjum.
     Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um veitingu styrkja samkvæmt þessari grein.

8. gr.

     2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er úthlutunarnefnd eða stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að ákveða að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning fara fram oftar en vikulega, enda verði slíkt talið eðlilegt með hliðsjón af atvinnuástandi.

9. gr.

     Eftirtaldar breytingar skal gera á 21. gr. laganna:
  1. 4. tölul. orðast svo:
    1. Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem þessu nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótaréttindi að nýju nema sannað sé með vottorði vinnumiðlunarskrifstofu að hann hafi stundað vinnu í samfellt 6 vikur eftir að hann missti bótaréttinn.

  2. 6. tölul. orðast svo:
    1. Þeir sem neita starfi sem þeim býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við gildandi kjarasamninga. Bótaréttur fellur ekki niður þótt sá sem hefur notið bóta í skemmri tíma en fjórar vikur hafni vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, enda fylgi starfinu að mati úthlutunarnefndar mun meiri áreynsla og vosbúð en þeim störfum sem hann hefur áður stundað. Þegar hafnað er vinnu fjarri heimili eða af öðrum ástæðum metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá gætt m.a. heimilisástæðna umsækjanda. Um missi bótaréttar samkvæmt þessum tölulið gilda ákvæði 4. tölul.



10. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Maður, sem öðlast bótarétt samkvæmt ákvæðum þessa kafla, á rétt á bótum fyrir þá daga sem hann er atvinnulaus frá og með 1. skráningardegi, sbr. þó 5. mgr. 24. gr., enda hafi tekjur hans síðustu 6 mánuði fyrir skráningu eigi verið hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði.
     Nú voru tekjur viðkomandi síðustu 6 mánuði fyrir skráningu hærri að meðaltali en sem nemur tvöföldum atvinnuleysisbótum á mánuði og frestast þá réttur til atvinnuleysisbóta þar til meðaltekjur fyrir liðinn mánuð verða jafnháar tvöföldum atvinnuleysisbótum. Nánari reglur um útreikning biðtíma skal ráðherra setja með reglugerð að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     Atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili sem skal vera 260 dagar.
     Nú fær bótaþegi tilfallandi vinnu dag og dag og skulu atvinnuleysisbætur hans þá skerðast vegna þessarar vinnu til samræmis við unninn stundafjölda, þó aldrei meira en miðað við 8 klst. fyrir hvern sólarhring. Þessi vinna skal ekki hafa áhrif á áunninn rétt bótaþegans til atvinnuleysisbóta.
     Gefa skal atvinnulausum kost á að sækja endurmenntunar- og starfsþjálfunarnámskeið eða taka þátt í átaksverkefnum í a.m.k. 8 vikur á hverju bótatímabili. Sinni hinn atvinnulausi ekki slíkum tilboðum fellur hann af bótum að loknu hverju bótatímabili í 16 vikur. Þátttaka í námskeiðum eða átaksverkefnum í skemmri tíma en 8 vikur skerðir biðtímann að loknu hverju bótatímabili hlutfallslega.

11. gr.

     Við 23. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
     Elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, skal koma til frádráttar atvinnuleysisbótum.

12. gr.

     Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ákveður með hvaða hætti skuli úthlutað til bótaþega sem ekki eru í stéttarfélagi og sjálfstætt starfandi.

13. gr.

     Eftirtaldar breytingar verða á 26. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Umsóknir um bætur skulu ritaðar á eyðublöð sem ráðuneytið lætur gera.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Umsókn ásamt nauðsynlegum gögnum sendist úthlutunarnefnd eða stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs eftir því sem við á.


14. gr.

     2. mgr. 35. gr. laganna orðast svo:
     Nú verður víðtækt og mikið atvinnuleysi og er þá stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að greiða í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir aukakostnað við að koma í veg fyrir atvinnuleysi á svæðinu, t.d. flutningskostnað á afla milli byggðarlaga og landshluta.

15. gr.

     36. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita lán með lægri vöxtum en venjulegum útlánsvöxtum til að koma á fót vinnu- og þjálfunarstöðvum fyrir fatlaða. Ekki mega slík lán þó nema meira en 40% stofnkostnaðar. Þá er stjórninni heimilt að greiða allt að þriðjungi rekstrarhalla slíkra stöðva, enda mæli stjórnarnefnd um málefni fatlaðra með því að slíkur styrkur verði veittur.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita styrki til eftirtalinna verkefna:
  1. endurþjálfunar starfsmannahópa sem misst hafa atvinnu sína vegna breyttra atvinnuhátta,
  2. að greiða fyrir tilfærslu starfsmanna milli starfsgreina og vegna búferlaflutninga í atvinnuskyni,
  3. þróunarverkefna til varanlegrar atvinnusköpunar.


16. gr.

     Eftirtaldar breytingar skulu gerðar á VIII. kafla laganna:
  1. 39. gr. orðast svo:
  2.      Eigi má gera fjárnám í bótum samkvæmt lögum þessum sem eigi hafa verið greiddar bótaþega. Eigi má heldur taka bætur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda.
  3. Í lok 40. gr. kemur tilvísun í lög um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota í stað laga nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum.
  4. 41. gr. orðast svo:
  5.      Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi sína missir rétt til bóta.
         Fyrsta brot varðar missi bóta í 2–6 mánuði, en ítrekað brot í 1–2 ár. Úthlutunarnefnd úrskurðar um missi bótaréttar af þessum sökum en úrskurðum hennar má skjóta til stjórnar sjóðsins sem úrskurðar endanlega um málið. Úthlutunarnefnd skal tilkynna sjóðstjórn um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein.
         Nú hefur bótaþegi aflað sér bóta með sviksamlegu athæfi, sbr. 1. mgr., og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 2. mgr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.


17. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. laganna skulu þó ekki taka gildi fyrr en 1. október 1993. Þegar lögin hafa hlotið staðfestingu er heimilt að fella þau ásamt öðrum breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar inn í meginmál laganna og gefa þau út að nýju svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 1993.