Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 416, 120. löggjafarþing 206. mál: afnám laga nr. 96/1936.
Lög nr. 153 28. desember 1995.

Lög um afnám laga nr. 96/1936, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti.


1. gr.

      Lög nr. 96/1936, um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti, eru úr gildi felld og fer um skyldur félaganna eftir ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 75/1981.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1997 vegna tekna á árinu 1996 og eigna í lok þess árs.

Ákvæði til bráðabirgða.
Skattalegt mat á eignum.
     Á árinu 1996 skal Mjólkursamsalan í Reykjavík framkvæma mat á þeim fyrnanlegu eignum, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem voru í eigu þeirra í byrjun þess árs. Skal þetta skattalega mat gilda í skattskilum félagsins.
     Matið skal framkvæma þannig að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár. Kostnaðarverð, þannig framreiknað, myndar fyrningargrunn sem fyrning reiknast af, í fyrsta sinn á árinu 1996.
     Til frádráttar framreiknuðu stofnverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af stofnverðinu, sem um getur í 38. gr. laga nr. 75/1981, eftir því sem við á, fyrir hvert ár frá og með upphafi fyrningartíma skv. 33. gr. laga nr. 75/1981. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning. Hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu stofnverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981, á eignum skv. 1. og 2. tölul. 32. gr. þeirra laga.
     Mismunur fyrningargrunns, sbr. 2. mgr. þessa ákvæðis, og framreiknaðra fyrninga, sbr. 3. mgr., telst eftirstöðvar fyrningarverðs. Fyrningargrunnur og fengnar fyrningar breytast síðan árlega, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum.
     Ríkisskattstjóri skal reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem Mjólkursamsalan í Reykjavík skv. 1. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis hefur eignast á árunum 1981–1995. Stuðullinn reiknast í samræmi við ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum nr. 75/1981, sbr. 26. gr. sömu laga. Hafi Mjólkursamsalan í Reykjavík eignast fyrnanlegareignir skv. 1., 3. eða 4. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981 fyrir ársbyrjun 1981 skulu þær ekki metnar samkvæmt þessu ákvæði. Þegar metnar eru eignir skv. 2. tölul. greindrar 32. gr., sem hafa verið í eigu Mjólkursamsölunnar í Reykjavík í fimmtán ár eða lengur, skal ríkisskattstjóri reikna stuðul til notkunar í því sambandi og skal hann hafa sömu viðmiðun og um getur í upphafi þessarar málsgreinar.
     Matsverð mannvirkja, sbr. 2. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, er Mjólkursamsölunni í Reykjavík heimilt að ákveða jafnt gildandi fasteignamati í árslok 1996 í stað framreiknaðs kostnaðarverðs (stofnverðs). Sé þessi heimild notuð myndar fasteignamatið nýjan fyrningargrunn. Sé fasteignamatið notað sem fyrningargrunnur samkvæmt þessari málsgrein reiknast ekki fyrningar skv. 3. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis fyrir liðinn tíma.
     Reglur þessa ákvæðis gilda einnig um skattalegt mat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á.
     Mjólkursamsalan í Reykjavík skal senda skattstjóra, eigi síðar en með skattframtali 1997, greinargerð um matið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Matsbreyting samkvæmt þessu ákvæði telst ekki til tekna heldur færist í sérstakan reikning vegna skattalegs mats sem telst til eigin fjár.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1995.