Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1043, 120. löggjafarþing 493. mál: Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.
Lög nr. 66 5. júní 1996.

Lög um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu sem gerður var í Arendal 14. júní 1994 og prentaður er sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     Þegar samningur sá er um ræðir í 1. gr. hefur öðlast gildi að því er Ísland varðar skulu ákvæði hans hafa lagagildi hér á landi.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

NORÐURLANDASAMNINGUR
um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.
     
     Ríkisstjórnir Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar,
     sem veita því athygli að Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar frá 15. júní 1992 á aðeins við um almannatryggingabætur, en það er breyting frá því sem var í fyrri Norðurlandasamningi um félagslegt öryggi sem fól einnig í sér félagslega aðstoð,
     sem álíta að auk réttar til félagslegra úrræða sem felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992 sé enn þörf á sérstökum norrænum reglum um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu,
     sem álíta að í vissu tilliti beri að rýmka réttinn, sem er tryggður með Norðurlandasamningnum um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi frá 17. júní 1981, til að nota eigið tungumál í öðru norrænu landi á sviði heilbrigðis- og félagsmála,
     hafa komið sér saman um að gera Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu, svohljóðandi:
I. HLUTI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Skilgreiningar.
     Í samningi þessum merkja orðin:
  1. „norrænt land“: sérhvert samningsríkjanna,
  2. „norrænn ríkisborgari“: ríkisborgara norræns lands,
  3. „hlutaðeigandi stjórnvald“:
  4. í Danmörku: félagsmálaráðherrann,
  5. í Finnlandi: félags- og heilbrigðismálaráðuneytið,
  6. á Íslandi: félagsmálaráðuneytið,
  7. í Noregi: félags- og heilbrigðismálaráðuneytið,
  8. í Svíþjóð: ríkisstjórnina (félagsmálaráðuneytið),
  9. eða það stjórnvald sem nefnd stjórnvöld tilnefna,
  10. „stofnun“: lands-, svæðis- eða staðbundið stjórnvald eða stofnun sem veitir aðstoð.


2. gr.

Efnislegt gildissvið.
     1. Samningurinn tekur til allrar löggjafar í norrænum löndum sem gildir á hverjum tíma um eftirtalin félagsleg málefni:
  1. félagslega aðstoð og félagslega þjónustu,
  2. aðrar félagslegar bætur sem ákvæði Norðurlandasamningsins um almannatryggingar frá 15. júní 1992 taka ekki til.

     2. Ákvæði 5. og 9. gr. gilda einnig um löggjöf um heilbrigðisþjónustu.
     3. Þegar samningur þessi er samþykktur skal hvert norrænu landanna leggja fram skrá yfir gildandi löggjöf sem samningurinn nær til. Síðan skal sérhvert land fyrir lok febrúarmánaðar ár hvert tilkynna danska utanríkisráðuneytinu um þær breytingar á skránni sem verða vegna löggjafar sem sett hefur verið á næstliðnu almanaksári.

3. gr.

Persónulegt gildissvið.
     Ef annað er ekki tekið fram í einstökum greinum tekur samningurinn til:
  1. norrænna ríkisborgara,
  2. annarra einstaklinga með löglega búsetu í norrænu landi.

4. gr.

Jafnrétti norrænna ríkisborgara.
     Við framkvæmd þeirrar löggjafar í norrænu landi, sem samningurinn tekur til, njóta ríkisborgarar annarra norrænna landa, sem dvelja með lögmætum hætti tímabundið eða hafa löglega búsetu í landinu, jafnréttis á við eigin ríkisborgara landsins.

II. HLUTI
Sérákvæði.

5. gr.

Notkun norrænna tungumála.
     1. Ríkisborgari norræns lands á rétt á að nota íslensku, dönsku, finnsku, norsku eða sænsku þegar hann sendir stjórnvaldi í öðru norrænu landi skrifleg erindi í einstökum málum sem varða rétt til félagslegrar aðstoðar eða félagslegrar þjónustu. Í slíkum málum skal hlutaðeigandi stjórnvald sjá til þess að einstaklingurinn fái nauðsynlega aðstoð túlks eða þýðanda í þessum tungumálum sé þess þörf.
     2. Í þeim tilvikum þegar tungumál ræður miklu um að markmiðinu með félagslegri aðstoð og félagslegri þjónustu verði náð skal stofnun, eftir því sem við verður komið, nota tungumál sem einstaklingurinn skilur.
     3. Ákvæðin í 1. og 2. mgr. eiga einnig við um heilbrigðisþjónustu og læknismeðferð.
     4. Að öðru leyti gilda ákvæðin í Norðurlandasamningnum um rétt norrænna ríkisborgara til að nota eigin tungu í öðru norrænu landi frá 17. júní 1981.

6. gr.

Félagsleg aðstoð og félagsleg þjónusta við tímabundna dvöl í öðru norrænu landi.
     Ef einstaklingur, sem samningurinn tekur til og dvelur með lögmætum hætti tímabundið í öðru norrænu landi, þarf skyndilega á félagslegri aðstoð og félagslegri þjónustu að halda skal hann fá slíka aðstoð frá því landi sem hann dvelur í samkvæmt lögum þess eins og þörf hans fyrir aðstoð segir til um.

7. gr.

Vernd gegn heimsendingu.
     Norrænan ríkisborgara má ekki senda heim vegna þarfar hans fyrir félagslega aðstoð ef fjölskylduaðstæður hans, tengsl við það land sem hann býr í eða aðstæður að öðru leyti mæla með því að hann verði um kyrrt og í engum tilvikum hafi hann búið með lögmætum hætti í landinu undanfarin þrjú ár.

8. gr.

Samstarf um ferð til annars norræns lands.
     Þegar sú staða kemur upp hjá stjórnvaldi í norrænu landi að öðru norrænu landi ber að taka á móti einstaklingi sem samningurinn tekur til hvílir skylda á því stjórnvaldi, þegar þess gerist þörf, að skipuleggja ferðina að því marki sem nauðsynlegt er í samvinnu við ábyrga stofnun í hinu norræna landinu.

9. gr.

Flutningur einstaklinga, sem hafa þörf fyrir meðferð eða umönnun í lengri tíma, til annars norræns lands.
     l. Þegar einstaklingur, sem samningurinn tekur til, þarfnast meðferðar eða umönnunar í lengri tíma og óskar að flytja frá einu norrænu landi til annars norræns lands sem hann tengist sérstökum böndum skulu ábyrg stjórnvöld í löndunum tveimur leitast við að greiða fyrir slíkum flutningi, enda bæti hann stöðu viðkomandi einstaklings í lífinu.
     2. Ábyrg stjórnvöld í landinu sem flutt er frá og landinu sem flutt er til geta ákveðið í samkomulaginu um flutninginn að skipta kostnaðinum af meðferð eða umönnun á milli stjórnvalda í löndunum tveimur.
     3. Að svo miklu leyti sem samkomulag það, sem getið er um í 2. mgr., nær til skiptingar á kostnaði sökum greiðslna vegna veikinda skal líta á það sem samning skv. 1. mgr. 23. gr. Norðurlandasamningsins um almannatryggingar frá 15. júní 1992.

10. gr.

Skipan ferðaþjónustu.
     Sveitarfélögum á landamærasvæðum milli norrænna landa ber að hafa samstarf um að haga ferðaþjónustu með þeim hætti að fötluðum og öldruðum einstaklingum verði gert kleift að ferðast til nágrannasveitarfélags í hinu landinu með sama hætti og til nágrannasveitarfélags innan landamæra eigin lands.

11. gr.

Fyrirframgreiðsla barnsmeðlags.
     l. Einstaklingur, sem samningurinn tekur til og sem flytur frá einu norrænu landi til annars norræns lands, á rétt á fyrirframgreiðslu barnsmeðlags í síðarnefnda landinu á sömu forsendum og ríkisborgarar þess lands frá þeim tíma sem hann tekur upp búsetu í landinu.
     2. Skjal um rétt til barnsmeðlags, sem gefið er út í norrænu landi, skal einnig teljast gildur grundvöllur fyrirframgreiðslu meðlags í öðru norrænu landi. Ef skjalið geymir ekki úrskurð dómstóls eða annars opinbers stjórnvalds skal það áritað vottorði um að samkvæmt því sé unnt að innheimta hjá hinum meðlagsskylda í landinu sem það var gefið út í.
     3. Heimilt er að lækka fyrirframgreiðslu meðlags um þá fyrirframgreiðslu sem hefur verið greidd í öðru norrænu landi fyrir sama tímabil.

III. HLUTI
Önnur ákvæði.

12. gr.

Ákvæði um framkvæmd.
     Hlutaðeigandi stjórnvöld skulu saman setja þær reglur sem þörf er á til þess að tryggja samræmda norræna framkvæmd þessa samnings.

13. gr.

Samstarf stjórnvalda og stofnana.
     1. Stjórnvöldum og stofnunum ber að veita gagnkvæmt liðsinni við framkvæmd þessa samnings að því marki sem nauðsynlegt er, m.a. með því að veita félagslega þjónustu á landamærasvæðum á milli norrænna landa. Í sérhverju norrænu landi skal vera stofnun tilnefnd af hlutaðeigandi stjórnvöldum sem tengiliður.
     2. Við samstarf í málum sem varða börn skal gefa sérstakan gaum að þörfum barnsins, möguleikum þess til að hafa samband við einstaklinga sem skipta það miklu og eigin óskum barnsins.

14. gr.

Gildistaka.
     1. Samningurinn gengur í gildi fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir heilir almanaksmánuðir frá því að allir samningsaðilar hafa tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu um samþykki sitt á samningnum.
     2. Hvað snertir Færeyjar, Grænland og Álandseyjar gengur samningurinn ekki í gildi fyrr en fyrsta dag næsta mánaðar eftir að liðnir eru tveir heilir almanaksmánuðir frá því að ríkisstjórn Danmerkur eða ríkisstjórn Finnlands, eftir því sem við á, hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands eða lögþing Álandseyja hafi tilkynnt að samningurinn skuli gilda í Færeyjum, á Grænlandi eða á Álandseyjum, eftir því sem við á.
     3. Danska utanríkisráðuneytið tilkynnir öðrum samningsaðilum og skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar um móttöku þessara tilkynninga og gildistökudag samningsins.

15. gr.

Uppsögn.
     1. Sérhver samningsaðili getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu þess efnis til danska utanríkisráðuneytisins en það skýrir öðrum samningsaðilum frá móttöku tilkynningarinnar og efni hennar.
     2. Uppsögn gildir aðeins fyrir þann samningsaðila sem hefur lagt hana fram og tekur hún gildi sex mánuðum eftir þann dag sem danska utanríkisráðuneytið tók við tilkynningu um hana.

16. gr.

Ákvæði í samningi um almannatryggingar felld úr gildi.
     Þegar þessi samningur gengur í gildi fellur síðasti málsliður 30. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar frá 15. júní 1992 úr gildi.

17. gr.

Varðveisla frumtextans.
     Frumtexti þessa samnings skal varðveittur í danska utanríkisráðuneytinu sem lætur öðrum samningsaðilum í té staðfest afrit af honum.
     
     Þessu til staðfestu hafa neðangreindir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað þennan samning.
     
     Gjört í Arendal 14. júní 1994 í einu eintaki á íslensku, dönsku, finnsku, norsku og sænsku og skulu allir textarnir jafngildir.

Samþykkt á Alþingi 22. maí 1996.