Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 711, 128. löggjafarþing 355. mál: Lífeyrissjóður sjómanna (elli- og makalífeyrir).
Lög nr. 151 18. desember 2002.

Lög um breyting á lögum nr. 45/1999, um Lífeyrissjóð sjómanna.


1. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Sjóðfélagi, sem orðinn er fullra 65 ára að aldri, á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.
     Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér, margfölduðum með 1,496.
     Heimilt er sjóðfélaga að hefja töku ellilífeyris áður en hann nær 65 ára aldri, en þó ekki fyrr en frá 60 ára aldri. Skal þá útreiknaður ellilífeyrir hans miðað við 65 ára aldur lækkaður fyrir hvern mánuð sem nemur samanlagðri prósentutölu samkvæmt eftirfarandi töflu:
Taka ellilíf- Lækkun fyrir
eyris hefst hvern mánuð Aldur Samtals lækkun
64–65 ára 0,65% 64 ára 7,8%
63–64 ára 0,60% 63 ára 15,0%
62–63 ára 0,55% 62 ára 21,6%
61–62 ára 0,50% 61 ára 27,6%
60–61 ára 0,45% 60 ára 33,0%
     Á sama hátt er sjóðfélaga heimilt að fresta töku ellilífeyris um allt að fimm ár og skal þá útreiknaður ellilífeyrir hans miðað við 65 ára aldur hækkaður fyrir hvern mánuð sem nemur samanlagðri prósentutölu samkvæmt eftirfarandi töflu:
Taka ellilíf- Hækkun fyrir
eyris hefst hvern mánuð Aldur Samtals hækkun
65–66 ára 0,70% 66 ára 8,4%
66–67 ára 0,75% 67 ára 17,4%
67–68 ára 0,80% 68 ára 27,0%
68–69 ára 0,85% 69 ára 37,2%
69–70 ára 0,90% 70 ára 48,0%
     Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur hafið töku ellilífeyris skulu stig hans reiknuð á ný við 65 og 70 ára aldur.

2. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Nú andast sjóðfélagi, sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum fyrir andlátið og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.
     Óskertur makalífeyrir skv. 7. mgr. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið.
     Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 19 ára aldri, enda sé það á framfæri makans.
     Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 65 ára.
     Ef maki sjóðfélaga er fæddur fyrir 1965 á hann rétt á ævilöngum makalífeyri. Makalífeyrir reiknast skv. 7. mgr., en lækkar um 2% fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1945, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1950, 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1955 og 2% að auki fyrir hvert ár sem makinn er fæddur eftir 1. janúar 1960. Skerðing innan fæðingarárs reiknast hlutfallslega út frá dagafjölda fram að fæðingardegi miðað við dagafjölda ársins. Önnur ákvæði um makalífeyri gilda þó meðan þau eru hagstæðari fyrir makann.
     Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem hefur sannanlega annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, enda sé ekki kveðið á um annað í samþykktum sjóðsins.
     Upphæð makalífeyris er hundraðshluti af grundvallarlaunum sjóðsins og nemur hundraðshluti þessi samanlögðum stigafjölda sem sjóðfélaganum er reiknaður, margfölduðum með 0,792. Auk áunninna stiga skal telja með þau stig sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 60 ára aldurs, reiknuð í samræmi við ákvæði 5. og 6. mgr. 10. gr., en þó skal aldrei miða meðaltal stiga við fleiri almanaksár en þau sem sjóðfélaginn hefur greitt iðgjöld. Hafi sjóðfélaginn notið örorkulífeyris úr sjóðnum skal reikna stig frá þeim tíma er honum var veittur örorkulífeyrir til 60 ára aldurs í samræmi við stig þau sem lögð voru til grundvallar örorkulífeyri. Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. laga þessara skal réttur til greiðslu lífeyris úr sjóðnum sem stofnast hefur fyrir gildistöku laganna ekki skerðast.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2002.