Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1198, 128. löggjafarþing 549. mál: aðgerðir gegn peningaþvætti (EES-reglur).
Lög nr. 42 20. mars 2003.

Lög um breytingu á lögum nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 1. gr. laganna:
 1. Orðin „samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að“ í inngangsmálslið falla brott.
 2. Í stað orðanna „greiðsluskjöl á peningamarkaði“ í a-lið 7. tölul. kemur: peningamarkaðsskjöl.
 3. C-liður 7. tölul. orðast svo: framtíðarsamninga og valréttarsamninga.
 4. Við 7. tölul. bætist nýr stafliður sem orðast svo:
  1. fasteignir.
 5. 11. tölul. orðast svo: Geymslu, umsjón, ráðgjöf og ávöxtun fjármálagerninga, þar með talinna rafbréfa.
 6. 13. tölul. orðast svo: Verðbréfaviðskipti samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
 7. Við bætast fjórir nýir töluliðir sem orðast svo:
  1. Fasteignasölu.
  2. Skipamiðlun.
  3. Viðskipti með eðalmálma og eðalsteina þegar einstök viðskipti nema hærri fjárhæð en tilgreind er í 2. mgr. 3. gr. og ef um lægri fjárhæð er að ræða ef viðskiptin fara fram í fleiri aðgerðum sem tengjast hver annarri.
  4. Viðskipti með listaverk þegar einstök viðskipti nema hærri fjárhæð en tilgreind er í 2. mgr. 3. gr. og ef um lægri fjárhæð er að ræða ef viðskiptin fara fram í fleiri aðgerðum sem tengjast hver annarri.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. Í stað orðsins „stórfelldu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: meiri háttar.
 2. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Einnig er átt við þegar einstaklingur eða lögaðili tekur að sér að geyma, dylja eða flytja slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af slíkum refsiverðum brotum.
 3. Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
 4.      Með ávinningi er átt við hvers kyns hagnað og eignir hverju nafni sem nefnast, þar með talin skjöl sem ætlað er að tryggja rétthafa aðgang að eignum eða öðrum réttindum sem meta má til fjár.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður sem orðast svo: Ef um er að ræða starfsemi sem hlotið hefur starfsleyfi, sbr. 2. mgr. 1. gr., skulu þó framangreind fjárhæðarmörk vera 1.000 evrur miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni.
 2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      Við upphaf viðskipta með fjarsölu, stofnun samninga með notkun fjarskiptaaðferða eða á annan sambærilegan hátt ber að afla viðbótargagna um viðskiptamann ef nauðsyn krefur svo og að krefjast þess að fyrsta greiðsla skuli gerð í nafni viðskiptamanns og af reikningi sem hann hefur stofnað í starfandi lána- eða fjármálastofnun. Í reglum sem einstaklingum og lögaðilum er skylt að setja um innra eftirlit fyrir starfsemina, sbr. 10. gr., skal þegar það á við kveða nánar á um viðskipti með notkun fjarskiptaaðferða og varðveislu gagna um slík viðskipti.


4. gr.

     Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Ríkislögreglustjóra ber að veita einstaklingum og lögaðilum aðgang að almennum upplýsingum um peningaþvætti og hvernig unnt sé að greina viðskipti sem falla undir ákvæði þessara laga.

5. gr.

     Við 10. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Einstaklingum og lögaðilum sem nefndir eru í 1. gr. ber skylda til þess að gera skriflegar skýrslur um allar grunsamlegar og óvenjulegar færslur sem verða við framkvæmd viðskipta í starfsemi þeirra. Um varðveislu slíkra gagna fer samkvæmt ákvæðum 6. gr.
     Lögaðilum sem nefndir eru í 1. mgr. 1. gr. ber við ráðningu starfsfólks að setja sérstakar reglur um hvaða athuganir skuli gerðar á ferli umsækjenda um stöður hjá fyrirtækjunum og í hvaða tilvikum skuli krafist sakavottorðs eða annarra sambærilegra skilríkja um feril og fyrri störf.

6. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Fái Fjármálaeftirlitið, önnur stjórnvöld, fagaðilar og aðrir þeir sem hafa eftirlit með starfsemi sem talin er upp í 1. gr. í störfum sínum vitneskju um viðskipti sem tengjast broti sem lýst er í 2. gr. eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist broti sem lýst er í 2. gr. skal það tilkynnt til ríkislögreglustjóra.
     Lögaðilum sem nefndir eru 1. mgr. 1. gr. ber að gefa sérstakan gaum að þeim ríkjum eða ríkjasvæðum sem ekki fylgja alþjóðlegum tilmælum og reglum um aðgerðir gegn peningaþvætti. Fjármálaeftirlitið skal gefa út tilkynningar og leiðbeiningar ef þörf er á sérstakri varúð í viðskiptum við ríki eða ríkjasvæði samkvæmt þessari grein.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. mars 2003.