Gagnleg vefföng
- Nordisk Råd
- Norræna húsið
- Norræna eldfjallastöðin
- Norræni fjárfestingarbankinn
- Slóðasafn Norðurlandaráðs
- Norræna félagið
- Norræna upplýsingaskrifstofan
Markmið, uppbygging og starfsemi
Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um samnorræn málefni. Auk þess heldur Norðurlandaráð nefndafundi þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum samnorrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Auk Norðurlandaráðs fer opinbert norrænt samstarf fram á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, sem er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem veitt er til norrænnar samvinnu árlega. Undirstaða starfsemi Norðurlandaráðs er Helsingforssamningurinn frá 1962.
Markmið Norðurlandaráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherranefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Á þann hátt hafa ráðið og ráðherranefndin t.d. staðið að því að samræma ýmis réttindi Norðurlandaþjóða með norrænum samningum, til að mynda Norðurlandasamningnum um almannatryggingar. Ráðið og ráðherranefndin hafa einnig komið á norrænum nemendaskiptum og reka ýmis verkefni og stofnanir á sviði menningar-, mennta- og rannsóknarmála, að ógleymdum tónlistar-, bókmennta-, umhverfis- og kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs.
Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert ríki skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs er fjallað um framkomnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar eða norrænna ríkisstjórna. Á Norðurlandaráðsþinginu gefa samstarfsráðherrar Norðurlanda þinginu skýrslu og svara fyrirspurnum. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður.
Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, Norrænt frelsi og norrænir vinstri grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna. Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fjórum málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs
Bryndís Haraldsdóttir (forseti Norðurlandaráðs 2024),
Oddný G. Harðardóttir,
Hanna Katrín Friðriksson.
Norræna velferðarnefndin
Guðmundur Ingi Kristinsson.
Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin
Orri Páll Jóhannsson.
Norræna sjálfbærninefndin
Ásmundur Friðriksson.
Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (aðalmaður),
Guðmundur Ingi Kristinsson (varamaður).