Norðurlandaráð

Nordisk råd, NR

Gagnleg vefföng


Markmið, uppbygging og starfsemi

Norður­landa­ráð var stofnað árið 1952 og er samstarfs­vettvangur þjóðþinga á Norður­löndum. Sjálfstjórnar­svæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í sams­tarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norður­landa­ráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um samnorræn málefni. Auk þess heldur Norður­landaráð nefndafundi þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlanda­ráðs er unnið að margvíslegum sam­norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Auk Norður­landa­ráðs fer opinbert norrænt samstarf fram á vegum Norrænu ráðherra­nefndarinnar, sem er samstarf­svettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem veitt er til norrænnar samvinnu árlega. Undirstaða starfsemi Norðurlandaráðs er Helsingforssamningurinn frá 1962.

Markmið Norðurlanda­ráðs er að auka samstarf norrænna ríkja með markvissri hugmyndavinnu og tilmælum sem beint er til Norrænu ráðherra­nefndarinnar eða ríkisstjórna Norðurlanda. Á þann hátt hafa ráðið og ráðherra­nefndin t.d. staðið að því að samræma ýmis réttindi Norðurlanda­þjóða með norrænum samningum, til að mynda Norðurlanda­samningnum um almanna­tryggingar. Ráðið og ráðherra­nefndin hafa einnig komið á norrænum nemendas­kiptum og reka ýmis verkefni og stofnanir á sviði menningar-, mennta- og rannsóknarmála, að ógleymdum tónlistar-, bókmennta-, umhverfis- og kvikmynda­verðlaunum Norður­landa­ráðs.

Í Norðu­rlanda­ráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna ríkjanna fjögurra á 20 þingmenn í Norður­landar­áði. Hvert ríki skipar forseta Norður­landa­ráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norður­landa­ráðs er fjallað um framkomnar tillögur og sendir þingið frá sér tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar eða norrænna ríkisstjórna. Á Norðurlandaráðsþinginu gefa samstarfsráðherrar Norðurlanda þinginu skýrslu og svara fyrirspurnum. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað í nefndir og trúnaðarstöður.

Í Norðurlandaráði starfa fimm flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn, Norrænt frelsi og norrænir vinstri grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna. Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fjórum málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandasamvinnunnar. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs

Bryndís Haraldsdóttir (forseti Norðurlandaráðs 2024),
Oddný G. Harðardóttir,
Hanna Katrín Friðriksson.

Norræna velferðarnefndin 

Guðmundur Ingi Kristinsson.

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin
Orri Páll Jóhannsson.

Norræna sjálfbærninefndin

Ásmundur Friðriksson.

Eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (aðalmaður),
Guðmundur Ingi Kristinsson (varamaður).

Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Frekari upplýsingar um uppbyggingu og starf Norðurlandaráðs.