Gagnleg vefföng
- Conference of Parliamentarians of the Arctic Region
- Norðurskautsráðið
- Arctic Monitoring and Assessment Programme (AMAP)
- Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF)
- Protection of the Arctic Marine Environment
- University of the Arctic
- Stofnun Vilhjálms Stefánssonar
Markmið, starfsemi og uppbygging
Þingmannanefnd um norðurskautsmál er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Fundir eru haldnir að jafnaði þrisvar á ári. Aðildarríkin eru Bandaríkin, Kanada, Norðurlönd og Rússland. Í nefndinni situr einn þingmaður frá hverju aðildarríki en auk þess tilnefnir Evrópuþingið einn fulltrúa. Fulltrúi Alþingis er jafnan formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál. Á fyrstu árum sínum vann þingmannanefndin ötullega að stofnun Norðurskautsráðsins.
Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993. Takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafði hafist nokkru áður þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi, Finnlandi, árið 1991, en ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti.
Á tveggja ára fresti er að auki haldin ráðstefna um norðurskautsmál sem þingmannanefndin undirbýr. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum sem láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þeirrar ráðstefnu.
Helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúta að sjálfbærri þróun, umhverfis- og náttúruvernd. Sérstök áhersla er einnig lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta norðlægra þjóðflokka sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð íbúa norðursins.
Norðurskautsráðið
Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 með sameiginlegri yfirlýsingu aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Undir merkjum ráðsins starfa ýmsir vinnuhópar er vinna að rannsóknum á þróun mannlífs og umhverfis á norðurskautssvæðum og reglulega koma út viðamiklar skýrslur um tiltekin málefni.
Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda, en Ísland fór með formennsku í ráðinu frá nóvember 2002 til nóvember 2004.
Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Þar mætti fyrst telja Háskóla norðurslóða sem var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun skólans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknarstofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Líkt og Háskóla norðurslóða er Rannsóknarþingi norðursins ætlað að auka samráð á milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Eins konar samstarfsnet þessara aðila hefur verið byggt upp og annað hvert ár er efnt til formlegs rannsóknarþings. Þátttakendur á rannsóknarþinginu koma víða að og eru þar m.a. vísindamenn, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, stjórnendur fyrirtækja og athafnamenn í auðlindanýtingu.
Nánari upplýsingar um þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál.