Vestnorræna ráðið

Vestnordisk Råd

Skrifstofa Vestnorræna ráðsins

Skrifstofa Vestnorræna ráðsins hefur aðsetur á Alþingi og er framkvæmda­stjóri ráðsins Lárus Valgarðsson, s. 563 0731, larus.valgardsson@althingi.is.

Gagnleg vefföng

Markmið, uppbygging og starfsemi

Lögþing Færeyja, landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu Vest­norræna þingmanna­ráðið í Nuuk á Græn­landi 24. september 1985 sem samstarfs­vettvang þinganna þriggja. Með því var formfest samstarf landanna sem oft ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd (Vestnorden). Á aðalfundi ráðsins árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið þegar samþykktur var nýr stofnsamningur. Þá voru einnig samþykktar nýjar vinnureglur og markmið samstarfsins skerpt.

Markmið ráðsins er að starfa að hagsmunum Vestur-Norðurlanda, gæta auðlinda og menningar Norður-Atlantshafs­svæðisins, fylgja eftir samvinnu ríkisstjórna og lands­stjórna Vestur-Norðurlanda, auka samstarfið innan norrænnar samvinnu og vera þing­ræðislegur tengiliður milli samvinnuaðila innan Vestur-Norðurlanda og annarra fjöl­þjóðlegra hagsmuna­hópa og ríkjasamtaka. Vest­norræna ráðið hefur ályktað um ýmis mál, þar á meðal umhverfis- og auðlindamál, aukið menningar­samstarf landanna og skóla- og íþróttasamvinnu, svo að fátt eitt sé nefnt. Ályktanir Vestnorræna ráðsins eru lagðar fram á Alþingi í formi þings­ályktunar­tillagna.

Í Vest­norræna ráðinu sitja 18 þingmenn, sex frá hverju landi. Vest­norræna ráðið kemur saman til ársfundar sem jafnframt fer með æðsta ákvörðunar­vald ráðsins. Þriggja manna forsætis­nefnd, skipuð einum þingmanni frá hverju landi, stýrir starfi ráðsins á milli ársfunda. Ráðið getur einnig sett niður sérstakar vinnunefndir um einstök mál. Sem dæmi má nefna nefnd sem hafði yfirumsjón með Bratta­hlíðar­verkefninu, samstarfs­verkefni grænlensku lands­stjórnarinnar og Vest­norræna ráðsins í tilefni af því að árið 2000 voru 1000 ár liðin frá því að Leifur heppni sigldi frá Bratta­hlíð og uppgötvaði Ameríku og rúm 1000 ár liðin frá byggingu Þjóð­hildarkirkju, fyrstu kristnu kirkju í Ameríku. Vígsla Þjóð­hildar­kirkju og bæjar Eiríks rauða fór fram í Brattahlíð 15.-17. júlí 2000.

Í starfi sínu í Vest­norræna ráðinu leitast þingmenn við að ná markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila innan vest­norræns samstarfs, samvinnu við norðurskauts­stofnanir og -samtök og skipulagningu á ráðstefnum og fundum.

Vefur Vestnorræna ráðsins.