3.11.2001

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Bretlands og Írlands

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, mun sækja Bretland heim dagana 4. - 9. nóvember næstkomandi. Þaðan mun hann halda í opinbera heimsókn til Írlands í boði forseta írska þingsins dagana 11. - 15. nóvember næstkomandi. Með þingforsetanum í för verða eiginkona hans, Kristrún Eymundsdóttir, Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður, Helgi Bernódusson, aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis og Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs Alþingis.

Í Bretlandi mun forseti Alþingis eiga fundi með forseta neðri deildar breska þingsins, Michael Martin, og Elliot Morley, aðstoðarráðherra í málefnum sjávarútvegs. Þá mun Halldór Blöndal eiga fundi með þingmönnum á breska þinginu. Í heimsókninni mun Halldór ræða samskipti þjóðþinga ríkjanna, sjávarútvegsmál þ.m.t. hvalveiðimálin og málefni kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield, auk annarra málefna. Miðvikudaginn 7. nóvember mun Halldór halda til Edinborgar þar sem hann mun eiga fundi með, Sir David Steel, forseta skoska heimastjórnarþingsins, og öðrum þingmönnum. Mun sendinefnd Alþingis ennfremur halda til Glasgow og Inverness.

Sunnudaginn 11. nóvember hefst opinber heimsókn forseta Alþingis til Írlands í boði Séamon Pattison, forseta írska þingsins. Með forseta Alþingis í för verða Guðmundur Árni Stefánsson, fyrsti varaforseti Alþingis, Gunnar Birgisson alþingismaður, Þuríður Backman alþingismaður, Hjálmar W. Árnason alþingismaður, Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis og Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs Alþingis.Nánari upplýsingar um heimsóknina eru veittar hjá alþjóðasviði Alþingis í síma 5630738.