26.3.2002

107. þing Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) var haldið í Marrakesh dagana 17.-22. mars 2002

Einar K. Guðfinnsson, formaður Íslandsdeildar var fenginn til að stýra starfi vinnunefndar sem hafði það hlutverk að semja ályktun til stuðnings ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1397. Hann fékk það vandasama hlutverk að reyna að ná samstöðu um ályktunartexta, en fulltrúar allra pólitískra svæðishópa innan IPU áttu fulltrúa í nefndinni, sem og fulltrúar Palestínumanna og Ísraels. Fundurinn var ekki átakalaus, en undir styrkri stjórn Einars K. Guðfinnssonar tókst að lokum að leggja fram ályktunardrög til þingsins sem allir fulltrúar nefndarinnar stóðu að, þ.m.t. bæði fulltrúar Israela og Palestínumanna. Var formanni Íslandsdeildar þökkuð frábær störf við að stýra þessu vandasama verki og ná niðurstöðu sem var viðunandi fyrir alla. Ályktunin var samþykkt samhljóða á lokadegi þingsins.

Einari K. Guðfinnssyni hefur jafnframt verið falið að vera einn af þremur höfundum skýrslu um fjármögnun þróunarmála sem taka á fyrir á ráðsfundi IPU í haust. Meðhöfundar Einars eru þingmenn frá Suður Afríku og Tælandi.

Ásta Möller var kjörin annar varaformaður kvennanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins f.h. Vesturlanda. Forseti kvennanefndarinnar er frá Suður Afríku og fyrsti varaforseti frá Japan. Kvennanefndin undirbýr m.a. kvennafundi sem haldnir eru í upphafi hvers IPU-þings. Kvennanefndin berst fyrir réttindum kvenna um heim allan og fyrir auknum hlut kvenna í stjórnmálum og veitir kvenkyns þingmönnum stuðning og aðstoð.

Frekari upplýsingar um 107. þing IPU fást hjá alþjóðasviði Alþingis.