31.5.2002

Heimsókn forseta Alþingis til Kanada

Dagana 3.-7. júní verður forseti Alþingis, Halldór Blöndal, í opinberri heimsókn í Kanada í boði kanadíska þingsins. Með þingforsetanum í för verða eiginkona hans, Kristrún Eymundsdóttir, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs Alþingis.
Fyrst mun sendinefndin halda til Ottawa þar sem forseti Alþingis mun eiga fundi með Ralph Goodale, leiðtoga ríkisstjórnarinnar í neðri deild kanadíska þingsins, og Stephen Harper, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í neðri deildinni. Þá mun forseti Alþingis eiga fund með Peter Milliken, forseta neðri deildarinnar. Þriðjudaginn 4. júní mun Halldór Blöndal eiga fundi með Robert Thibault, sjávarútvegsráðherra Kanada, og Dan Hays, forseta öldungadeildar þingsins, og fylgjast með fyrirspurnartíma öldungadeildarinnar. Miðvikudaginn 5. júní mun sendinefndin halda til Calgary þar sem forseti Alþingis mun hitta fulltrúa samtaka Vestur-Íslendinga í Calgary og Markerville og í Markerville mun sendinefndin skoða sögustaði Stephans G. Stephanssonar. Frá Calgary mun sendinefndin halda til Banff.