12.8.2002

Opinber heimsókn forseta neðri deildar kanadíska þingsins 13.-16. ágúst

Peter Milliken, forseti neðri deildar kanadíska þingsins, verður í opinberri heimsókn á Íslandi dagana 13.-16. ágúst í boði forseta Alþingis. Með heimsókn sinni er kanadíski þingforsetinn að endurgjalda opinbera heimsókn Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, til Kanada í júní sl.

Fyrstu tvo daga heimsóknarinnar ferðast kanadíski þingforsetinn um Norðuausturland og heimsækja þar m.a. Háskólann á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, tekur á móti Peter Milliken í Alþingishúsinu fimmtudaginn 15. ágúst.

Kanadíski þingforsetinn þiggur hádegisverð á Þingvöllum í boði Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og á fund með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á Bessastöðum.