12.11.2002

Ársfundur NATO-þingsins í Istanbúl

Ársfundur NATO-þingsins verður í Istanbúl 15.-19. nóvember 2002. Formleg setning ársfundarins verður föstudaginn 15. nóvember, með þátttöku Robertsons lávarðar, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Málefnanefndir NATO-þingsins, sem eru fimm talsins, munu fjalla um skýrsludrög og ályktanir á fundum sínum 16.-18. nóvember og svo mun þingheimur koma saman til fundar þann 19. nóvember. Á ársfundinum mun samstarfsnefnd NATO-þingsins og rússneska þingsins funda formlega í fyrsta sinn.

Helstu mál fundarins verða m.a. fyrirhuguð stækkun NATO, hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi, málefni Íraks og hömlur gegn útbreiðslu gereyðingarvopna.

Á NATO-þinginu eiga sæti 214 þingmenn frá hinum nítján aðildarríkjum NATO. Þá eiga 74 þingmenn frá aukaaðildarríkjum NATO-þingins þátttökurétt á fundinum auk áheyrnarfulltrúa.

Íslandsdeild NATO-þingsins er skipuð þeim Árna Ragnari Árnasyni formanni, Guðmundi Árna Stefánssyni varaformanni og Jónínu Bjartmarz.