4.7.2003

Fundi vestnorrænna þingforseta í Qaqortoq lokið 3. júlí 2003

Vestnorrænu þingforsetarnir, Halldór Blöndal, forseti Alþingis, Edmund Joensen, forseti færeyska Lögþingsins, og Jonathan Motzfeldt, forseti grænlenska Landsþingsins, hafa lokið öðrum sameiginlegum fundi sínum í Qaqortoq. Fyrsti fundur vestnorrænu þingforsetanna var haldinn í nóvember 2002 í Reykjavík.

Tilgangur funda þingforsetanna er að efla samvinnu vestnorrænu þinganna.

Á fundi sínum á Grænlandi fjölluðu þingforsetarnir um starf þinganna og gáfu yfirlit yfir ástand stjórnmála í löndunum þrem.

Forsetarnir voru sammála um að samvinnan innan Vestnorræna ráðsins sé löndunum þremur og svæðinu sem heild afar mikilvæg. Þeir styðja endurmat sem unnið er að innan Vestnorræna ráðsins en í því hefur komið í ljós að samstarf við Norðurlandaráð ásamt samvinnu við norrænar stofnanir á borð við NAPA og Norrænu húsin o.fl. er hluti af grunninum að góðu vestnorrænu samstarfi í framtíðinni.

Forsetarnir urðu einnig sammála um að leggja til að samskipti við Evrópusambandið verði á dagskrá Vestnorræna ráðsins og að fylgst verði stöðugt með málum sem snertir löndin þrjú innan sambandsins.