24.10.2003

Þing Norðurlandaráðs í Osló 27.-29. október 2003

Norðurlandaráðsþing er haldið í Osló dagana 27.-29. október og sækir fullskipuð Íslandsdeild Norðurlandaráðs þingið.

Almenn dagskrá Norðurlandaráðsþingsins hefst mánudaginn 27. október með framsögu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra um forgangsmál norræna ríkisstjórnarsamstarfsins árið 2004, en þá taka Íslendingar við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.

Fjölmörg mikilvæg pólitísk málefni verða tekin til umfjöllunar á þinginu, m.a. málefni vestnorrænu landanna, auknir möguleikar Norðurlandabúa til að flytjast hindrunarlaust innan Norðurlanda og hlutverk Norðurlanda í Evrópu eftir stækkun Evrópusambandsins. Af öðrum málefnum sem bera mun hátt á þingi Norðurlandaráðs má nefna rannsóknir og nýsköpun, umhverfisvernd á Eystrasalti, baráttu gegn mansali og vændi, vinnumarkaðsmál og norræn kvikmyndaverðlaun.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa þau Jónína Bjartmarz formaður, Rannveig Guðmundsdóttir varaformaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson og Steingrímur J. Sigfússon.