12.4.2004

Þemaráðstefna Norðurlandaráðs 14.-15. apríl 2004

Árleg þemaráðstefna Norðurlandaráðs verður haldin í Helsinki dagana 14.-15. apríl. Þar munu stjórnmálamenn frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum og Norðvestur-Rússlandi koma saman og ræða norðlægu víddina í ESB eftir stækkun sambandsins hinn 1. maí næstkomandi. Meginmarkmið norðlægu víddarinnar er að auka samstarf milli ESB og nágrannalanda þess í Norður-Evrópu, efla svæðasamstarf og stuðla að öryggi og stöðugleika á svæðinu.

Fyrir hönd Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sækja þemaráðstefnuna þau Jónína Bjartmarz formaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Drífa Hjartardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurður K. Kristjánsson og Mörður Árnason.