6.9.2005

Fundur þingforseta aðildarríkja Alþjóðaþingmannasambandsins í New York 7.-9. september

Forseti Alþingis, Halldór Blöndal, sækir 2. alþjóðaráðstefnu þingforseta sem Alþjóðaþingmannasambandið og Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir í New York 7.-9. september. Munu þingforsetarnir m.a. ræða samstarf þjóðþinga og Sameinuðu þjóðanna og um hlutverk þjóðþinga til eflingar friði, öryggi og lýðræði í heiminum. Fundurinn er haldinn í aðdraganda leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna og munu þingforsetarnir væntanlega samþykkja ályktun til leiðtogafundarins. Ýmsir aðrir fundir verða haldnir í tengslum við ráðstefnuna, t.d. mun forseti Alþingis sækja fund þingforseta Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem og fund þingforseta smáríkja í Evrópu.

Í för með forseta Alþingis eru, auk eiginkonu hans, skrifstofustjóri Alþingis og forstöðumaður alþjóðasviðs.