26.2.2006

Forseti Alþingis sækir fund kvenþingforseta 27. febrúar í New York

Forseti Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, sækir fund kvenþingforseta sem Alþjóðaþingmannasambandið skipuleggur í tengslum við 50. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna þann 27. febrúar í New York. Á fundinum verður rætt um stöðu kvenna í stjórnmálum og aðgerðir til að auka þátttöku þeirra. Þingforsetarnir munu jafnframt ræða áherslur sínar í starfi og skiptast á hugmyndum um hvernig breyta megi starfsháttum þinganna og innleiða ný vinnubrögð sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna.
 
Alþjóðaþingmannasambandið heldur jafnframt þingmannafund 1. mars í New York. Fundurinn ber heitið Jafnrétti kynjanna - framlag þjóðþinga. Auk forseta Alþingis, munu Ásta Möller, formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins og Jóhanna Sigurðardóttir, 4. varaforseti Alþingis, sitja fundinn.