10.6.2006

Heimsókn Íslandsdeildar IPU á Bretlandi 6.-9. júní

Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) heimsótti breska þingið dagana 6.-9. júní í boði Bretlandsdeildar IPU. Í sendinefndinni voru Ásta Möller, formaður, Kristján Möller og Arnbjörg Sveinsdóttir, auk Belindu Theriault, starfsmanns Íslandsdeildarinnar.

Tilgangur heimsóknarinnar var að styrkja samskipti þinganna, eiga viðræður við breska þingmenn um margvísleg mál og kynna sér starfsemi breska þingsins. Sendinefndin átti viðræður við fjölda breskra þingmanna sem sýndu Íslandi mikinn áhuga. Sérstaklega höfðu breskir þingmenn áhuga á stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, útrás íslenskra fyrirtækja og fjárfestingar í Bretlandi, afstöðu Íslands til ESB, sjávarútvegsmálum og umhverfismálum. Auk þess kynntu íslensku þingmennirnir framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, stöðu varnarmála á Íslandi og þátttöku Íslands í friðargæslustarfi. Þau ræddu jafnframt sameiginlega hagsmuni við að koma í veg fyrir sjóræningjaveiðar á Reykjaneshrygg.

Enn fremur var stjórnmálaástandið í báðum löndunum til umræðu, sem og starfshættir þinganna og starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins. Íslenska sendinefndin fékk tækifæri til að fylgjast með fyrirspurnatíma forsætisráðherra í neðri deild breska þingsins og fylgdist með umræðum í lávarðadeildinni. Á fundum hitti sendinefndin meðal annarra Austin Mitchell sem spilaði stórt hlutverk í að ljúka þorskastríðinu á sínum tíma, Jim Dowd sem hefur staðið fyrir áhugaverðum rannsóknum á samkeppnisstöðu á breskum matvælamarkaði og Sylviu Heal, varaforseta breska þingsins, auk fjölda annarra þingmanna úr báðum deildum breska þingsins.

Óhætt er að segja að bresku þingmennirnir hafi mun betri innsýn í málefni Íslands eftir heimsóknina og að vináttubönd þinganna hafi styrkst enn frekar.