7.9.2006

Heimsókn sendinefndar frá fylkisþingi Kaliforníu 7.-13. september 2006

Sendinefnd frá fylkisþingi Kaliforníu verður í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Alþingis dagana 7.-13. september. Fyrir sendinefndinni fer öldungadeildarþingmaðurinn Tom Torlakson en hann er af íslenskum ættum.
 
Fylkisþingmennirnir munu m.a. kynna sér orkumál, auðlindanotkun, sjávarútvegsmál og efnahagsmál. Þeir hefja heimsóknina á Austurlandi þar sem þeir munu skoða framkvæmdir við Kárahnjúka og álverið í Reyðarfirði og ferðast síðan um Suðurland þar sem þeir kynna sér ferða- og atvinnumál. Þeir heimsækja Alþingi og eiga fund með forseta Alþingis og með fulltrúum þingflokka. Þeir hitta jafnframt forseta Íslands, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, eiga fundi í Seðlabankanum og Háskóla Sameinuðu þjóðanna og heimsækja Nesjavallavirkjun.
 
Fjölmiðlum gefst tækifæri til myndatöku í Alþingishúsinu þegar sendinefndin heimsækir þinghúsið mánudaginn 11. september kl. 14.