6.1.2007

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Sádi-Arabíu 7.-11. janúar 2007

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, heimsækir Sádi-Arabíu 7.-11. janúar nk. í boði forseta ráðgjafarþings landsins. Þetta er fyrsta opinbera heimsóknin á milli þinganna, en sendinefnd frá ráðgjafarþinginu kom í vinnuheimsókn til Íslands árið 2004. Með þingforseta í för verða þingmennirnir Rannveig Guðmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir, auk Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðamála á skrifstofu Alþingis.
 
Sádiarabíska ráðgjafarþingið fékk inngöngu í Alþjóðaþingmannasambandið árið 2003 og vinnur nú að því að auka samskipti sín við þjóðþing annarra ríkja.
Í heimsókninni verða rædd samskipti menningarheima, þjóðfélagsþróun í Sádi-Arabíu og málefni kvenna, málefni Mið-Austurlanda, viðskiptamál og fleira. Jafnframt verður framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kynnt. Sendinefndin mun eiga fundi með fulltrúum konungsfjölskyldunnar, forseta þingsins, þingmönnum og fulltrúum viðskiptalífsins. Hún mun fylgjast með störfum ráðgjafarþingsins og skoða sögustaði í Riyadh og Jeddah.