16.4.2007

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Kaliforníu 17.-23. apríl 2007

Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og eiginmaður hennar, Kristinn Björnsson, munu heimsækja Kaliforníu dagana 17.-23. apríl í boði efri deildar fylkisþings Kaliforníu. Með þeim í för verða þingmennirnir Sigríður Anna Þórðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Hjálmar Árnason, auk Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, og Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðamála. Um endurgjaldsheimsókn er að ræða en sendinefnd frá fylkisþingi Kaliforníu heimsótti Alþingi á síðasta ári.

Sendinefndin mun koma við í Los Angeles, Santa Monica, Monterey og San Francisco, auk höfuðborgarinnar Sacramento. Rætt verður við forseta efri og neðri deildar fylkisþingsins og ýmsa fylkisþingmenn, meðal annars nefndarformenn, leiðtoga meiri og minni hluta þingsins og fleiri. Þess má geta að einn fylkisþingmaðurinn, Tom Torlakson, er af íslenskum ættum. Sendinefndin mun einnig funda með vararíkisstjóra Kaliforníu, yfirmanni heimavarna fylkisins, viðskiptaráðherra, sveitarstjórnarmönnum, rektor og ýmsum prófessorum Kaliforníuháskóla í Santa Barbara, sérfræðingum og háttsettum embættismönnum á sviði umhverfis- og orkumála og fulltrúum viðskiptalífsins. Þá mun sendinefndin hitta Helga Tómasson, listrænan stjórnanda San Francisco ballettsins.

Nánari upplýsingar um heimsóknina fást hjá almannatengsladeild í síma 563 0651 og 897 5672.