14.12.2007

Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fundar í Norræna húsinu

Í tilefni af fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs er boðið til fundar með blaðamönnum 14. desember kl. 14.45-15.00 í Norræna húsinu. Dagfinn Høybråten, forseti Norðurlandaráðs, Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, og Jan-Erik Enestam, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, munu þar svara spurningum fréttamanna.

Á fundi forsætisnefndarinnar mun Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs mæla fyrir tillögu Íslandsdeildarinnar um að sett verði á fót nefnd á vegum Norðurlandaráðs sem hafi það verkefni að fjalla um öryggi á norðurslóðum í ljósi breyttra aðstæðna. Talið er að hlýnun andrúmsloftsins muni valda aukinni umferð um Norðurhöf og aukinni ásókn í auðlindanýtingu á svæðinu. Íslandsdeildin leggur til að nefndin hafi það verkefni að standa að greiningu á stöðu öryggis- og björgunarmála á norðurslóðum og standa fyrir ráðstefnum og umræðum um það efni. Tillagan verður rædd á fundinum.

Auk öryggismála á Norður-Atlantshafi mun forsætisnefndin ræða þau mál sem efst eru á baugi í norrænu samstarfi.

Nánari upplýsingar veitir Lárus Valgarðsson ritari Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sími 862-0169.