29.1.2008

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 29.-30. janúar

Janúarfundir Norðurlandaráðs eru haldnir dagana 29.–30. janúar í sænska þinginu, Riksdagen í Stokkhólmi. Fyrir hönd Alþingis sækja fundina Árni Páll Árnason, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, Björk Guðjónsdóttir, Helgi Hjörvar, Kjartan Ólafsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Siv Friðleifsdóttir.

Helstu umfjöllunarefni fundanna eru áherslur í dagskrá Norðurlandaráðs á árinu og áherslur í formennskuáætlun í norrænu ráðherranefndinni. Finnar fara í með formennsku í Norðurlandaráði árið 2008 og Svíar í norrænu ráðherranefndinni.

Helstu áherslur í áætlunum ráðsins og ráðherranefndarinnar snúa að samstarfi Norðurlanda um frumkvæði í hnattvæddri samkeppni og samhæfðum undirbúningi fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldin verður í Kaupmannahöfn árið 2009.