15.5.2008

Heimsókn forseta Alþingis í sænska þingið 14. til 17. maí

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, er í opinberri heimsókn í Svíþjóð í boði forseta sænska þingsins dagana 14.-17. maí

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, er í opinberri heimsókn í Svíþjóð í boði forseta Ríkisdagsins, sænska þingsins, dagana 14.-17. maí.

Forseti Alþingis átti í gær fund með Lars Leijonborg, menntamálaráðherra Svíþjóðar, og heimsótti Bo Bladholm, forseta borgarstjórnar Stokkhólms.

Í dag hitti forseti Alþingis Per Westerberg, forseta sænska þingsins, og nokkra þingmenn. Ræddu þeir m.a. þingstörf og tvíhliða samskipti þinganna. Þá fundaði forseti Alþingis með fulltrúum umhverfis- og landbúnaðarnefndar, menntamálanefndar og fjárlaganefndar sænska þingsins. Síðdegis heimsótti hann Per Unckel, landshöfðingja Stokkhólmsléns og fyrrverandi framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar.

Á morgun mun forseti Alþingis halda ávarp við opnun ræðismannafundar í sendiráði Íslands í Stokkhólmi, en fundinn sækja ræðismenn Íslands í Svíþjóð og umdæmislöndunum Albaníu, Sýrlandi, Kýpur og Serbíu. Þá mun forseti Alþingis heimsækja Anders Björk, landshöfðingja í Uppsölum, og síðdegis mun Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, ganga á fund Carls Gustavs XVI Svíakonungs og Silvíu drottingar.

SB_svithjod2008

Per Westerberg, forseti sænska þingsins, og Sturla Böðvarsson.