20.5.2008

Heimsókn bresku landsdeildar IPU til Alþingis 20.-22. maí

Breska landsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) heimsækir Alþingi dagana 20.-22. maí. Í sendinefndinni eru fimm þingmenn auk starfsmanns landsdeildarinnar. Tilgangur heimsóknarinnar er að styrkja samskipti þinganna, eiga viðræður við íslenska þingmenn um margvísleg mál og kynna sér starfsemi Alþingis.
 
Þingmennirnir munu m.a. kynna sér utanríkismál, orkumál, auðlindanýtingu, sjávarútvegsmál og efnahagsmál. Meðan á heimsókninni stendur munu þeir eiga fundi með forseta Alþingis, Íslandsdeild IPU og fulltrúum í utanríkismálanefnd, umhverfisnefnd, efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd. Þeir hitta einnig iðnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, auk þess sem þeir eiga fund með fulltrúum ASÍ, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands.