5.6.2008

Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins í Þórshöfn 5.-7. júní

Vestnorræna ráðið heldur árlega þemaráðstefnu sína í Þórshöfn í Færeyjum dagana 5.-7. júní 2008.

Björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi og möguleikar á auknu fjölþjóðlegu samstarfi um leitar- og björgunarmál er þema ráðstefnunnar.

Af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins sækja ráðstefnuna Karl V. Matthíasson, núverandi formaður Vestnorræna ráðsins, Árni Johnsen, Guðjón A. Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Jón Gunnarsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins hafa Landsbjörg og systrasamtök þeirra í Færeyjum, Landhelgisgæsla Íslands og Færeyja auk færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins skipulagt sameiginlega björgunaræfingu á lokadegi ráðstefnunnar. Verður það í fyrsta sinn sem þessir aðilar æfa sameiginlega á sjó og landi.