25.8.2008

Ársfundur Vestnorræna ráðsins 25.-28. ágúst 2008

Ársfundur Vestnorræna ráðsins fer fram í Grundarfirði dagana 25.-28. ágúst 2008. Landsdeildir Vestnorræna ráðsins, skipaðar þingmönnum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, sækja fundinn auk ráðherra og fulltrúa Norðurlandaráðs og norska Stórþingsins.

Fyrir hönd Íslandsdeildar sækja fundinn Karl V. Matthíasson, formaður, Árni Johnsen, varaformaður, Guðbjartur Hannesson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson og Siv Friðleifsdóttir. Meðal efnis á fundinum eru eftirfylgni á sviði björgunar- og öryggismála, samstarf björgunarsveita sjálfboðaliða á Vestur-Norðurlöndunum og aukið samráð sjávarútvegsráðherra landanna til að styrkja stöðu landanna gagnvart Evrópusambandinu á sviði sjávarútvegs og sjálfbærrar nýtingar dýrastofna eins og hvala og sela. Auk þess verður tekin til umræðu reynslan af Hoyvíkur-samningnum, fríverslunarsamningi Íslands og Færeyja. Í tengslum við ársfundinn verður þemadagur um vestnorræna sögu og menningu á sögusafninu í Grundarfirði.