28.8.2008

Fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 26.-28. ágúst

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, sækir fund forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sem haldinn er í Jurmala í Lettlandi dagana 26.-28. ágúst 2008. Með forseta í för eru Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, og Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.

Í gær ræddu þingforsetar um nánara samstarf Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins og stöðu þjóðþinganna gagnvart Evrópusambandinu. Kynnti Per Westerberg, forseti sænska Ríkisdagsins, í því samhengi undirbúning Svía fyrir að taka við forsæti ráðherraráðs ESB. Þá ræddu forsetar stefnu ESB fyrir Eystrasaltssvæðið og stöðu Lissabonsáttmálans.

Á síðasta ári fóru þingforsetar til Georgíu í þeim tilgangi að hvetja til áframhaldandi lýðræðisþróunar í landinu, áttu viðræður við stjórnvöld og stjórnarandstöðu og sendu frá sér yfirlýsingu um ástandið í Georgíu og á Kákasussvæðinu. Á fundi þingforseta í gær ræddu þeir um átökin í Georgíu og afleiðingar þeirra á stjórnmál og öryggismál Kákasussvæðisins. Hörmuðu þingforsetar átökin og lögðu áherslu á að virða bæri alþjóðlega viðurkennd landamæri og fullveldi Georgíu. Forsetar þjóðþinganna ítrekuðu að virða bæri ákvæði friðarsamkomulagsins þegar í stað og veita óhindraðan aðgang fyrir mannúðarhjálp og endurbyggingarstarf. Þá fordæmdu þingforsetar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja ákvörðun Rússa um að viðurkenna sjálfstæði sjálfsstjórnarhéraðanna Abkasíu og Suður-Ossetíu.

Í dag tóku forsetar þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til umfjöllunar orkumál og loftlagsbreytingar. Kynnti Thor Pedersen, forseti danska þingsins, loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Kaupmannahöfn á næsta ári, en þar verður reynt að ná samkomulagi sem leysa mun af hólmi Kyoto samkomulagið. Þá ræddu þingforsetar sameiginleg verkefni við að styðja lýðræðisþróun og næsta fund, sem haldinn verður í Noregi á næsta ári.