26.8.2009

Fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja 25.-27. ágúst

Árlegur fundur forseta þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja er haldinn í Ósló dagana 25.-27. ágúst. Auk forseta þjóðþinganna sækja fundinn að þessu sinni forseti Norðurlandaráðs og forseti Eystrasaltsþingsins.
 
Til umræðu á fundinum eru m.a. samskipti Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins, tengsl þjóðþinganna og Evrópusambandsins, málefni Evrópuráðsins og sameiginleg verkefni norrænu og baltnesku þjóðþinganna.
 
Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sat fundinn í gær og dag. Gerði hún grein fyrir framvindu mála á Íslandi frá síðasta fundi og helstu málum á þingi. Ræddi hún framvindu í ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna og lagði áherslu á mikilvægi þeirra fyrirvara sem gerðir hafa verið við ríkisábyrgðina, til þess að greiðslugeta Íslands væri tryggð, öllum samningsaðilum til hagsbóta.
 
Forseti Alþingis færði fulltrúum Norðurlandaþjóðanna þakkir fyrir aðstoð þeirra við Íslendinga á erfiðum tímum. Þá gerði hún grein fyrir umsókn Íslands um aðild að ESB sem vakti mikinn áhuga og jákvæð viðbrögð þeirra aðildarríkja sem sóttu fundinn. Aðildarumsókn Íslands varð kveikja að umræðum, m.a. um framtíðarstöðu EES-samningsins og stofnana hans. Við þetta tækifæri afhenti Arunas Valinskas, forseti þjóðþings Litháens, forseta Alþingis frumskjal ályktunar litháíska þingsins, sem samþykkt var 23. júlí, þar sem skorað er á þjóðþing og ríkisstjórnir Evrópusambandsríkjanna að styðja aðildarumsókn Íslands.
 
Þann 26. ágúst flutti forseti Alþingis erindi um stefnu Evrópusambandsins í málefnum norðurskautsins og mikilvægi þess að norrænu og baltnesku ríkin væru í fararbroddi í málefnum svæðisins, jafnt þau sem eru innan ESB og utan.