4.11.2009

Fundur forseta Alþingis og forseta Evrópuþingsins í Brussel

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, átti fund með Jerzy Buzek, forseta Evrópuþingsins, í Brussel 4. nóvember sl. Fyrr um daginn hitti forseti Alþingis að máli Gabriele Albertini, formann utanríkismálanefndar Evrópuþingsins og Cristian Dan Preda, framsögumann (e. rapporteur) nefndarinnar um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Með forseta Alþingis í för eru Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og Ragnheiður E. Árnadóttir alþingismaður.
 
Forseti Alþingis og forseti Evrópuþingsins ræddu samskipti þinganna í umsóknarferli Íslands. Lýstu þeir vilja til að koma á fót sameiginlegri þingmannanefnd Evrópuþingsins og Alþingis sem mun hafa það hlutverk að fylgjast með samskiptum Íslands og Evrópusambandsins og þá sérstaklega aðildarviðræðunum sem í hönd fara. Mun forseti Alþingis leggja til við forsætisnefnd að slík nefnd verði skipuð hið fyrsta.
 
Forseti Alþingis bauð forseta Evrópuþingsins að sækja Ísland heim í opinberri heimsókn og þáði hann boðið. Lagði forseti Alþingis áherslu á að mikilvægt væri að forseti Evrópuþingsins hefði tækifæri til að kynna sér íslenskar aðstæður og aðildarumsókn Íslands.