4.11.2009

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Króatíu 1.-4. nóvember

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, fór í opinbera heimsókn til Króatíu 1.-4. nóvember 2009, í boði Luka Bebić, forseta króatíska þingsins. Tvíhliða samskipti ríkjanna og hlutverk þjóðþinganna í aðildarumsóknarferlinu að Evrópusambandinu bar hátt á fundi þeirra.
 
Bæði Ísland og Króatía hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu og gegna þjóðþing landanna mikilvægu hlutverki í því ferli. Forseti króatíska þingsins gerði grein fyrir reynslu og eftirlitshlutverki króatíska þingsins í aðildarviðræðum. Forseti Alþingis og forseti króatíska þingsins voru sammála um mikilvægi þess að efla samskipti þjóðþinganna og miðla reynslu og þekkingu af hlutverki þeirra í aðildarumsóknarferlinu.
 
Með forseta í för voru Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, og Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.
 
Í heimsókninni áttu forseti Alþingis og formaður utanríkismálanefndar Alþingis jafnframt fund með fulltrúum í Evrópunefnd þingsins og utanríkismálanefnd. Þá hittu þau einnig að máli forseta Króatíu og utanríkisráðherra landsins.
 
Ísland var fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Króatíu árið 1991. Þingforseti og forseti Króatíu þökkuðu Íslendingum sérstaklega þann stuðning.