25.11.2009

Lokayfirlýsing fundar þingforseta smáríkja Evrópu á Kýpur 22.-25. nóvember 2009

Forsetar þjóðþinga evrópskra smáríkja funduðu í Nikósíu á Kýpur dagana 22.-25. nóvember 2009. Fundurinn er árlegur samráðsvettvangur þjóðþinga evrópskra smáríkja sem eru aðilar að Evrópuráðinu með íbúafjölda undir 1 milljón. Á málefnaskrá fundarins voru áhrif efnahagskreppunnar á smáríki, málefni tengd ólöglegum innflytjendum og umræða um hvernig smáríki uppfylla skuldbindingar samkvæmt alþjóðalögum.
 
Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, gerði m.a. grein fyrir áhrifum alþjóðlegu efnahagskreppunnar á íslenskt samfélag og þeim skuldbindingum sem falla á Ísland í kjölfar bankahrunsins. Vakti hún sérstaka athygli á því að tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar var ekki skrifuð með hrun bankakerfis heillar þjóðar í huga.
 
Í lokayfirlýsingu fundarins lýstu þingforsetar m.a. yfir samkennd með Kýpur og Möltu vegna þess vanda sem löndin standa frammi fyrir vegna mikils fjölda ólöglegra innflytjenda. Lögðu þingforsetar áherslu á mikilvægi félagslegrar samheldni og þess að hafa sérstakar gætur á mennta- og umhverfismálum á krepputímum. Þá kom fram í niðurstöðu fundar að mikilvægt væri að auka alþjóðlega samvinnu og gagnkvæma upplýsingagjöf í baráttu við peningaþvætti. Lögðu þingforsetar áherslu á mikilvægi alþjóðalaga og fordæmdu sérstaklega hernaðarofbeldi og hernám. Ákveðið var að næsti fundur þingforseta smáríkja í Evrópu yrði haldinn í Lúxemborg að ári.
 
Auk Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, sóttu fulltrúar þjóðþinga Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborgar, Möltu, Mónakó, San Marínó og Svartfjallalands fundinn.