27.5.2010

Fundur þingforseta Norðurlanda og Eystrasaltsríkja með forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, átti í dag fund í Washington með Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjanna, ásamt þingforsetum hinna Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Jafnframt funduðu þingforsetarnir með Howard Berman, formanni utanríkismálanefndar fulltrúadeildarinnar.
 
Á fundinum með Pelosi var gerð grein fyrir hinu nána samstarfi norrænu og baltnesku þjóðþinganna og lýst áhuga á nánara samstarfi þeirra við Bandaríkjaþing. Þá voru varnar- og öryggismál til umræðu, m.a. samskipti Atlantshafsbandalagsins við Rússa. Einnig voru málefni norðurskautsins rædd og lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu auðlinda á svæðinu og mikilvægi umhverfisverndar í hinu viðkvæma lífríki norðursins.

Fundur þessi er haldinn í framhaldi af fyrri fundum þingforsetanna með forseta fulltrúadeildarinnar, með það að markmiði að efla tengsl við Bandaríkjaþing og ræða sameiginleg málefni.