16.7.2010

Forseti Alþingis sækir ráðstefnur Alþjóðaþingmannasambandsins í Sviss 16.-21. júlí

Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, sækir 6. ráðstefnu kvenþingforseta á vegum Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldin er í Bern í Sviss 16.-17. júlí. Til ráðstefnunnar er boðið öllum kvenþingforsetum aðildarlanda Alþjóðaþingmannasambandsins.

Forseti Alþingis sækir einnig ráðstefnu þingforseta allra aðildarríkja Alþjóðaþingmannasambandsins sem boðað er til á fimm ára fresti. Ráðstefnan var fyrst haldin í New York árið 2000. Þetta er því þriðja heimsráðstefna þingforseta og er hún að þessu sinni er haldin dagana 19.-21. júlí í Genf í Sviss. Til ráðstefnunnar er boðið öllum þingforsetum aðildarríkjanna 155 og einnig þingforsetum níu ríkja sem eiga aukaaðild að Alþjóðaþingmannasambandinu.

Alþjóðaþingmannasambandið var stofnað árið 1889 og hefur síðan verið meginvettvangur alþjóðasamstarfs þingmanna. Flest þjóðþing heims eiga aðild að sambandinu og hefur Alþingi átt aðild að því frá 1951.