5.10.2010

Stofnun sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins

Stofnfundur sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins verður haldinn þriðjudaginn 5. október í Þjóðmenningarhúsinu. Við opnun fundarins munu forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir og formenn nefndarinnar, Evrópuþingmaðurinn Pat the Cope Gallagher og Árni Þór Sigurðsson alþingismaður flytja ávörp.

Á dagskrá stofnfundar sameiginlegu þingmannanefndarinnar eru samskipti Íslands og ESB þar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Timo Summa sendiherra og fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB og Christian Monnoyer fulltrúi ráðherraráðs ESB flytja ávörp. Aðrir dagskrárliðir eru m.a. staða efnahagsmála á Íslandi, sjávarútvegsstefnur Íslands og ESB, norðurslóðamál og orkumál. Í lok fundar mun nefndin afgreiða tilmæli um aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.

Sameiginlegri þingmannanefnd, sem skipuð er þingmönnum Evrópuþingsins og þjóðþings umsóknarríkis, er ætíð komið á fót í aðildarviðræðuferli. Hlutverk sameiginlegu þingmannanefndarinnar verður að fylgjast með samskiptum Íslands og Evrópusambandsins og þá sérstaklega umsóknar- og aðildarviðræðuferlinu. Hin sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins samanstendur af 18 þingmönnum, níu frá Alþingi og níu frá Evrópuþinginu.

Þátttakendur á stofnfundi sameiginlegrar þingmannanefndar
Íslands og Evrópusambandsins:

Alþingismenn:
Árni Þór Sigurðsson, formaður
Bjarni Benediktsson,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,
Valgerður Bjarnadóttir,
Þorgerður K. Gunnarsdóttir,
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Álfheiður Ingadóttir og
Margrét Tryggvadóttir.

Evrópuþingmenn:
Pat the Cope GALLAGHER,
Petru LUHAN,
Indrek TARAND,
Søren Bo SØNDERGAARD,
Francesco Enrico SPERONI og
Cristian Dan PREDA.