29.10.2010

Fréttamannafundur 62. þings Norðurlandaráðs verður mánudaginn 1. nóvember klukkan 11.00 á Grand hóteli

Fréttamannafundur verður haldinn mánudaginn 1. nóvember klukkan 11.00 á Grand hóteli, (Háteig B). Á honum mun Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, kynna dagskrá þingsins.

Norðurlandaráðsþing 2010 verður haldið á Grand hóteli í Reykjavík frá þriðjudeginum 2. nóvember til fimmtudagsins 4. nóvember. Fulltrúar á þinginu verða forsætisráðherrar, aðrir ráðherrar og þingmenn frá öllum norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðunum. Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa: Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir.

Þingið verður sett klukkan 14.30 þriðjudaginn 2. nóvember og í kjölfarið hefst Norrænn leiðtogafundur. Efni leiðtogafundarins er: Grænn hagvöxtur - leiðin út úr kreppunni. Að leiðtogafundi loknum kynnir forsætisráðherra Finna, Mari Kiviniemi, formennskuáætlun Finna í Norrænu ráðherranefndinni árið 2011.

Bein útsending verður frá Norðurlandaráðsþingi á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone og á vef Alþingis. Útsendingin frá setningu Norðurlandaráðsþings, leiðtogafundi og kynningu formennskuáætlunar verður túlkuð á íslensku.

 

Dagskrá þingsins er á vef Norðurlandaráðs.

Á dagskránni eru meðal annars eftirtaldir atburðir:

Mánudaginn 1. nóvember kl. 17.00 verður bókin Sambandsríkið Norðurlönd (Förbundsstaten Norden) eftir Gunnar Wetterberg kynnt en bókin er ársrit Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs 2010, bein útsending verður frá kynningunni.

Þriðjudaginn 2. nóvember kl. 9.30 verður fréttamannafundur með norrænu forsætisráðherrunum.

Miðvikudaginn 3. nóvember kl. 11.30 verður fréttamannafundur með norrænum utanríkisráðherrum.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Íslensku óperunni miðvikudaginn 3. nóvember klukkan 18.30. Veitt eru kvikmynda-, bókmennta-, tónlistar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Minnt er á að fjölmiðlamenn þurfa að skrá sig á Norðurlandaráðsþing fyrir klukkan 10.00 föstudaginn 29. október. Nánari upplýsingar og skráningarform eru á vef Norðurlandaráðs. Framvísa þarf gildum blaðamannapassa/passa frá fjölmiðli, með mynd, þegar kort er sótt. Hægt verður að sækja aðgangskort á Grand hótel frá kl. 8.00 á mánudagsmorgun.