4.4.2011

Forseti Alþingis ávarpar ráðstefnu forseta þjóðþinga aðildarríkja ESB í Brussel, 3.-5. apríl 2011

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sækir ráðstefnu forseta þjóðþinga aðildarríkja ESB í Brussel, 3.-5. apríl 2011. Til ráðstefnunnar er boðið forsetum þjóðþinga aðildarríkja ESB, auk forseta þjóðþinga umsóknarlanda. Belgíska þingið býður til ráðstefnunnar að þessu sinni og var forseti Alþingis boðinn sérstaklega velkominn, en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur þingforseti sækir þennan vettvang.
 

Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, var af þessu tilefni boðið að ávarpa ráðstefnuna við upphaf hennar. Í ávarpi sínu lagði hún áherslu á sérstöðu Íslands og mikilvægi þess að ná viðunandi samkomulagi við Evrópusambandið um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Þá þakkaði hún forsetum þjóðþinganna, sem sækja ráðstefnuna, jákvæðan hug og stuðning við aðildarumsókn Íslands.

Meðal þess sem rætt verður í dag og á morgun er eftirlitshlutverk þjóðþinganna með stefnumálum Evrópusambandsins og stofnunum þess; m.a. á sviði öryggis- og varnarmála og evrópskrar lögreglusamvinnu (e. Europol). Einnig munu forsetar ræða samskipti þjóðþinga og kjósenda og upplýsingahlutverk fjölmiðla. Loks munu þingforsetar ræða áhrif efnahagskreppunnar á fjárlög, stöðugleika evrunnar og hugmyndir um aukna samvinnu Evrópusambandsríkja um efnahagsstjórn innan sambandsins.