17.9.2012

Fundur formanna utanríkismálanefnda þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna

Formenn utanríkismálanefnda þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna koma saman til fundar í Reykjavík 16.-17. september. Gestgjafi fundarins er Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, en samráðsfundir sem þessir eru haldnir til skiptis í ríkjunum átta.

Meginumræðuefni fundarins verða norðurskautsmál, ástandið í Miðausturlöndum, samvinna við grannsvæði í austri og ástandið í Hvíta-Rússlandi. Auk þess verður farið yfir forgangsmál og áherslur í starfi einstakra utanríkismálanefnda. Þá verður Hellisheiðarvirkjun heimsótt og efnt til sérstakrar málstofu um virkjun jarðvarma.