2.10.2012

Fundur kvenþingforseta aðildarríkja Alþjóðaþingmannasambandsins í Nýju Delí, 3.-4. október

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sækir 7. fund kvenþingforseta aðildarríkja Alþjóðaþingmannasambandsins í Nýju Delí 3.-4. október í boði Meiru Kumar, forseta indverska þingsins. Til fundarins er boðið öllum kvenþingforsetum Alþjóðaþingmannasambandsins. Aðild að sambandinu eiga 162 þjóðþing og gegna konur starfi þingforseta í 37 þjóðþingum í heiminum.
 
Fundarefni að þessu sinni eru meðal annars breytingar á þátttöku kvenna í stjórnmálum, hvernig haga má skipulagi þjóðþinga til að auðvelda hlutdeild kvenna í stjórnmálum, hlutverk kvenþingforseta, auk fleiri fundarefna. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu fundarins.