22.10.2012

Forseti Alþingis í opinberri heimsókn í Þýskalandi 22.-26. október 2012

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, verður í opinberri heimsókn í Þýskalandi dagana 22.-26. október 2012 í boði dr. Norberts Lammerts, forseta þýska þingsins. Með forseta í för verða alþingismennirnir Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Magnús Orri Schram og Sigurður Ingi Jóhannsson, ásamt Jörundi Kristjánssyni alþjóðaritara.
 
Í Berlín munu forseti og þingmenn eiga fundi með forseta þýska þingsins, utanríkismálanefnd, Evrópunefnd, þýsk-norræna vináttuhópi þýska þingsins og aðstoðarutanríkisráðherra Þýskalands.

Þá mun sendinefndin heimsækja Hamborg og funda með fulltrúum íslenskra fyrirtækja í höfuðstöðvum Eimskips. í Hamborg munu forseti og sendinefnd jafnframt eiga fund með forseta þings sambandslandsins og borgarstjóra.

Forseti og sendinefndin heimsækja enn fremur Dresden þar sem fundur verður með þingforseta sambandslandsins og aðstoðarforsætisráðherra Saxlands.

Dr. Norbert Lammert, forseti þýska þingsins, var í opinberri heimsókn á Íslandi í mars á síðasta ári og er heimsókn forseta Alþingis og þingmanna liður í að efla tvíhliða samskipti þjóðþinganna og landanna, en í ár eru 60 ár frá því að stofnað var til stjórnmálasambands við Þýskaland.